Hvað vill Samfylkingin gera í húsnæðismálum?

Bergljót Kristinsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar í Kópavogi.

Húsnæðismál hafa alla tíð verið eitt af meginverkefnum jafnaðarmanna þar sem húsnæðisöryggi óháð efnahag eða félagslegri stöðu er forsenda jafnra tækifæra og almennrar velferðar. Samfylkingin lagði fram þingsályktunartillögu á Alþingi núna í nóvember um aðgerðaáætlun í húsnæðismálum. Tillagan snýr að hraðari uppbyggingu og auknu framboði hagkvæms húsnæðis, aðstoð við fyrstu kaupendur, húsnæðisöryggi, félagslegu húsnæði sveitarfélaga og auknum réttindum leigjenda. Tillagan felur í sér að fela Alþingi að ráðast í skýra og fjármagnaða aðgerðaáætlun til að bregðast við því alvarlega ástandi sem komið er upp á húsnæðismarkaði – að miklu leyti vegna skorts á heildstæðri stefnumótun og framtíðarsýn síðustu ríkisstjórna.
 
Raunhæfar tillögur

Gerð er tillaga að taka upp startlán að norskri fyrirmynd sem koma ungu fólki og viðkvæmum hópum til aðstoðar við fyrstu kaup. Startlánin eru einnig veitt til endurfjármögnunar til að tryggja húsnæðisöryggi fjölskyldna í vanda. Að stjórnvöld komi að uppbyggingu í það minnsta 5.000 leiguíbúða á næstu árum til að koma fótunum undir leigumarkað sem er rekinn án hagnaðarsjónarmiða. Skyldur verði settar á sveitarfélög þegar kemur að félagslegu húsnæði með það að markmiði að jafna byrðar sveitarfélaga. Húsnæðis- og vaxtabætur verði hækkaðar í samræmi við launaþróun og skerðingar minnkaðar. Byggingarreglugerðin verði einfölduð og samræmd við reglugerðir annars staðar á Norðurlöndum.Tekjur einstaklinga vegna útleigu einnar íbúðar verði undanþegnar fjármagnstekjuskatti.  Húsaleigulögum verði breytt til að tryggja húsnæðisöryggi og réttindi leigjenda. Lögum um húsnæðisbætur verði breytt með það að markmiði að ungt fólk og öryrkjar sem deila húsnæði öðlist rétt á húsnæðisbótum.

Hvað er að gerast í Kópavogi?

Í Kópavogi hefur ekki verið úthlutað einni lóð til óhagnaðardrifinna leigufélaga og ólíklegt að við sjáum það í bráð. Engin stúdentaíbúð er til í Kópavogi og engin í sjónmáli. Óhagnaðardrifin byggingarfélög fá ekki úthlutað lóðum enda fáar til. Uppbygging í dag er að stórum hluta drifin áfram af byggingarfyrirtækjum sem kaupa upp lóðir á þéttingarsvæðum og byggja þar nýtt húsnæði. Það er gott og vel en verð á slíkum íbúðum er ekki á færi efnaminni kaupenda. Bærinn leggur að meðaltali 200 milljónir króna á ári til kaupa á félagslegu húsnæði. Á móti kemur að þeir sem búa í félagslegu húsnæði geta í dag keypt sínar íbúðir ef tekjur þeirra fara yfir viðmiðunarmörk. Þannig gengur hægar að fjölga félagslegu húsnæði sem þó er ærin þörf á því fólk er á biðlista í 2 – 3 ár eftir íbúð. Næsti tekjuflokkur fyrir ofan þá sem geta mögulega fengið félagslegt húsnæði á um fáa kosti að velja í Kópavogi þar sem ekki er gert ráð fyrir honum í uppbyggingarplani núverandi stjórnvalda. Hvers eiga þeir að gjalda?

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn