Hverjum þjóna bæjaryfirvöld í Kópavog?

Aðsent:

Hákon Gunnarsson og Tryggvi Felixson skrifa.

Í grein sem birtist í Fréttablaðinu 13. september sl. hvöttum við nýtt fólk í bæjarstjórn Kópavogs til að draga lærdóm af ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar í Kópavogi fyrir liðlega 5 árum um að selja fasteignir í miðbænum til fjárfesta. Nú er svo komið að árlega eru greiddar tæplega 90 milljóna króna úr sameiginlegum sjóði bæjarbúa til fyrirtækisins Árkórs ehf fyrir afnot af húsnæði sem áður var í eigu bæjarfélagsins. Þá bentum við á að einkennilegt væri að bæjaryfirvöld hefðu tekið á leigu húsnæði af Árkór ehf til afnota fyrir skóla.

Nýr bæjarstjóri í Kópavogi bregst við á samfélagsmiðlum þann 18. september sl. og fullyrðir að við höfum snúið öllu á hvolf. Það má telja virðingarvert af nýjum bæjarstjóra að bregðast til varna fyrir forvera sinn og þá sem stóðu að baki honum í framangreindum  fjármálagjörningi sem við teljum vafasaman.  Hitt er verra að rökin sem nýr bæjarstjóri færir fyrir fullyrðingu sinni eru ekki haldbær.

Bæjarstjóri staðfestir að Kópavogsbær seldi eignir sínar fyrir 1.050 milljónir króna. Það þýðir samkvæmt útreikningum á fermetraverði að Árkór reiddi fram 303 milljónir fyrir eignina Fannborg 6. Fjárfestirinn hefur fram til þessa fengið 200 miljónir króna úr bæjarsjóði sem leigugreiðslu fyrir eignina skv. yfirliti frá bæjaryfirvöldum. Með sama framhaldi tekur það Árkór ehf. 8 ár að borga eignina upp að fullu með leigugreiðslum úr bæjarsjóðnum sem seldi fyrirtækinu eignina. Nánast allt viðhald á eigninni er á kostnað Kópavogsbæjar ef marka má samninga sem við höfum undir höndum. Þetta teljum við gagnrýniverð vinnubrögð sem nýir bæjarfulltrúar þurfi að draga lærdóm af.

Bæjarstjóri staðfestir að Kópavogsbær hefur tekið gamla félagsheimilið (Fannborg 2) á leigu fyrir skólabörn. Það gleður okkur gamla Kópavogsbúa að enn skuli vera not fyrir þetta söguríkasta hús Kópavogs sem áformað er að rífa. Einnig gleður að ástand húsnæðisins skuli vera svo gott að öllum líði þar vel. Í þessu ljósi er því óskiljanlegt að bæjaryfirvöld hafi í upphafi síðasta kjörtímabils fallist á að lækka fasteignagjöld nýs eiganda um 6 milljónir kr. á ári með því að samþykkja að húsið væri á fokheldisstigi. Við þá ákvörðun varð bæjarsjóður af um 6 milljónum króna í fasteignagjöld á ári. Á kjörtímabili gera það 24 milljónir króna.  Við höfum lengi leitað haldbærra skýringa á þessari ákvörðun, án árangurs. Bæjarstjórinn bætir því miður ekki úr því. Fullyrðing um að fokheldisvottorð hafi verið gefið út vegna þess að húnsæðið var ekki í notkun, er ekki rétt. Allir sem gengið hafa um miðbæjarsvæði Kópavogs undanfarin ár vita betur. Nægir að nefna verkfræðistofuna Örugg og hinn vinsæla sjónvarpsþátt Verbúðina.

Nú er svo komið að árlega eru greiddar tæplega 90 miljóna króna úr sameiginlegum sjóði bæjarbúa til fyrirtækisins Árkórs ehf. fyrir afnot af húsnæði sem áður var í eigu bæjarfélagsins. Bæjarstjóri bendir með réttu á að Árkór greiði í bæjarsjóð um 9 milljónir króna á ári. Fjárhæðin, nettó, sem sjóður bæjarbúa þarf að láta af hendi, er því um 80 milljónir króna. Okkur finnst þetta sóun á almannfé.

Það er athyglisvert að bæjarstjóri réttlætir framangreindan fjármálagjörning með því að upplýsa að mánaðarleiga á Fannborg 6 sé næstum hin sama og Kópavogsbær greiddi áður í Eignasjóð Kópavogsbæjar. Þetta eru ekki boðleg rök. Það var tilfærsla úr bæjarsjóði til Eignasjóðs sem fer með fasteignir og viðhald fasteigna Kópavogs. Eignirnar á Fannborg 2,4 og 6 eru horfnar af efnahagsreikningi Kópavogsbæjar og greiðslur fyrir leigu þeirra eru til utanaðkomandi fjárfesta.

Það kemur fram í athugasemdum bæjarstjóra að 670 milljónir hafi verið settar í „viðhald“ á  Fannborg 2.  Sex hundruð og sjötíu milljónir í viðhald á sömu eign og er síðan úrskurðuð „fokheld“  árið 2019.  Hvernig er slíkt hægt? Fyrir þessa upphæð hefði verið auðvelt að byggja frá grunni nýtt ráðhús sem hefði nýst fyrir alla starfsemi bæjarins. Þetta er annað dæmi um að bæta þarf „fjármálastjórn“ í Kópavogi sem bæjarstjóri dregur sjálf fram. Hefði ekki farið betur á að byggja gott ráðhús í bæjarlandinu fyrir þennan 0,7 milljarð sem fór í gagnslaust viðhald á gamla Kópavogsbíói, sem á að rífa?    

Bæjaryfirvöld hafa mörg undanfarin ár haldið því fram að góð fjármálastjórn væri aðalsmerki í rekstri bæjarfélagsins einfaldlega vegna þess að niðurstöðutölur rekstrarreiknings bæjarins hafa verið réttu megin við núllið í tæplega 40 milljarða rekstri.  Sagan um Félagsheimili Kópavogs – og Fannborgarreitsins alls – segir allt aðra sögu. 

Bæjarstjóri gerir athugasemdir við þá fullyrðingu okkar að Kópavogsbær leggi ofuráherslu á sjónarmið fjárfesta við gerð skipulags innan þéttbýlis í Kópavogi. Hún bendir á Kópavogsbær hefur aldrei afsalað sér skipulagsvaldi til þróunar- eða byggingaraðila.  Það er rangt, fjárfestum hefur verið leyft að gera tillögur að deiliskipulagi fjölmargra þróunarreita.  Hún gefur til kynna að samráð við íbúa hafi verið í góðu lagi. Það kemur á óvart því að nýr meirihluti í Kópavog hefur margsinnis lýst yfir því að bæta þurfi samráð við íbúa um skipulagsmál.  Erfið deilumál undanfarin ár eru til vitnis um samráðsleysi.  Við fögnum því að breyting verði á og erum reiðubúnir að taka þátt í slíku samtali.   

Við lýsum því yfir að sagan um sölu eigna og gerð skipulags í miðbæ Kópavogs gefi tilefni að spyrja hverjum bæjaryfirvöld í Kópavogi hafi fyrst og fremst verið að þjóna; bæjarbúum eða fjárfestum? Við teljum okkur hafa fært sterk rök fyrir því að fjárfestar hafi verið í fyrirrúmi. Við erum ekki einir um þá skoðun og má jafnvel fullyrða að niðurstaða síðustu bæjarstjórnarkosninga sé til vitnis um það.

Við getum endalaust deilt um meðferð á fjármunum bæjarbúa – en látum staðar numið hér. Okkur virðist sem Kópavogsbæ skorti framtíðarsýn um hvernig bærinn á að þróast – til dæmis á lykilsvæðum eins og í miðbæ Kópavogs.  Stefnu í skipulagsmálum í Kópavogi þarf að hugsa upp á nýtt í góðu  samtali við bæjarbúa.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Þúsundir íbúða í nýjum lífsgæðakjarna í Kópavogi

Áform um uppbyggingu hjúkrunarrýma og íbúða á Gunnarshólma Loftmynd af svæðinu Bæjarráð Kópavogs hefur samþykkt að vísa áfram til samþykktar bæjarstjórnar drögum að viljayfirlýsingu við Aflvaka þróunarfélag um uppbyggingu 5.000

Kársnesskóla skipt í tvo skóla

Kársnesskóla verður skipt upp í tvo sjálfstæða skóla á skólaárinu 2024 til 2025 samkvæmt tillögu menntasviðs Kópavogsbæjar sem samþykkt hefur verið í bæjarstjórn Kópavogs. Lagt er til að skólanum verði

Jólatónleikar Samkórs Kópavogs

Samkór Kópavogs syngur inn aðventuna á sínum árlegu jólatónleikum sunnudaginn 3. desember n.k. Tónleikarnir verða í Digraneskirkju og hefjast kl. 17:00. Einsöngvari með kórnum að þessu sinni er tenórsöngvarinn Gunnar