
Í Kópavogi er talsvert góð aðstaða fyrir unglinga til að stunda íþróttir og tómstundir af ýmsu tagi. Hér eru glæsileg íþróttahús og frábærar sundlaugar. Metnaðarfullt tónlistarstarf á sér líka stað hér í Tónlistarskóla Kópavogs, Tónsölum og skólahljómsveit Kópavogs. Auk þess vinna fjölmörg tómstundafélög gríðarlega mikilvægt starf í þágu unglinga og sjálfboðaliðar inna af hendi mikilvægt starf til að halda íþrótta- og tómstundafélögunum gangandi. Mikið er lagt upp úr menntun þjálfara og kennara og lagt kapp á að iðkendum sé búin aðstaða til fyrirmyndar. Árangurinn lætur ekki á sér standa enda eigum við í Kópavogi á að skipa afreksfólki í ýmsum íþróttagreinum, frábæra skólahljómsveit, tónlistarskóla sem rekur bestu raftónlistarbrautina fyrir unglinga á landinu og barna – og unglingakóra sem hafa vakið athygli um allan heim.
Iðkendastyrkir og frístundastyrkir
Kópavogsbær hefur hingað til lagt metnað í að standa vörð um íþróttastarf og tómstundir ýmiskonar og miklir fjármunir eru lagðir í þessa málaflokka á hverju ári. Gerðir hafa verið rekstrarsamningar við stærstu íþróttafélögin og með hverjum iðkanda á aldrinum 5 – 18 ára er greiddur iðkendastyrkur til félaganna. Forráðamenn barna hafa undanfarin ár getað sótt um frístundastyrk frá Kópavogsbæ til að niðurgreiða kostnað við íþróttir og tómstundir. Þegar frístundastyrkjakerfið var upphaflega tekið í notkun haustið 2005 var aðeins gert ráð fyrir því að íþróttir væru styrkhæfar. Fljótlega bættust við dansnámskeið/kennsla, skátar, myndlist, tónlistarnámskeið og nú síðast sjálfstyrkingarnámskeið. Nám í Tónlistarskóla Kópavogs hefur ekki verið styrkhæft og rökin fyrir því hafa verið sú að Kópavogsbær greiði nú þegar mikið með hverjum nemenda í skólanum. Við í Samfylkingunni höfnum þeim rökum og lítum á frístundastyrkinn út frá forsendum og hagsmunum barna – það er ekki sanngjarnt að bera saman kostnað bæjarins við rekstur tónlistarskóla og rekstur íþróttamannvirkja.
Af hverju er greitt meira með unglingum?
Það skiptir máli að við náum að halda börnunum okkar í tómstundum eða íþróttum þegar á unglingsaldurinn er komið. Þess vegna er greitt þrisvar sinnum meira í iðkendastyrk með unglingum á aldrinum 12 – 15 ára, þegar brottfallið er hvað mest. Þátttaka unglinga í skipulagðri æskulýðsstarfssemi t.d. í íþróttum, tónlist og dansi hefur þótt hafa mikið forvarnargildi. Það hefur sýnt sig að unglingar sem halda áfram að starfa að sínu áhugamáli þegar á unglingsaldurinn er komið gengur oft betur að fóta sig í lífinu ef þau starfa í skipulögðu tómstundastarfi, þar sem haldið er utan um þau og þau setja sér markmið sem þau stefna á að ná. Unglingurinn lærir að vinna með öðrum, setja sér markmið og einnig að takast á við mótlæti þegar illa gengur. Þetta er mjög mikilvægur grunnur að því að verða fullorðinn einstaklingur sem þarf að takast á við áskoranir lífins. Sjálfsmynd unglinga sem stunda íþróttir er almennt betri en þeirra sem ekki stunda skipulagt starf og rannsóknir sýna að þeir sem iðka skipulagt íþróttastarf segjast síður reykja, drekka eða neyta annarra vímuefna.
Af hverju Samfylking?
Samfylkingin vill hækka frístundastyrkinn upp í 30 þúsund strax og 50 þúsund á kjörtímabilinu. Við viljum einnig gera nám í tónlistarskóla Kópavogs styrkhæft. Við viljum koma skólahljómsveit Kópavogs í framtíðarhúsnæði og við viljum tryggja að frístundastyrkir til barna og ungmenna nái til alls listnáms. Við viljum að unglingum líði vel í Kópavogi.
-Kristín Sævarsdóttir skipar 5. sæti á lista Samfylkingarinnar í Kópavogi.