Nú þegar alþingiskosningar eru handan við hornið er mikilvægt að íhuga hvernig stjórn og hvernig forystu við viljum í landsmálum að þeim loknum.
Vinstri græn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur eru sá kostur sem er líklegastur til að hafa það sem til þarf, þrautseigju, framsýni, stöðugleika og réttsýni.
Tökum nokkur dæmi úr því sem VG og Katrín hafa sagt:
„Við ætlum nefnilega ekki að hækka skatta á almennt launafólk. Við ætlum að ráðast í þá uppbyggingu í heilbrigðismálum, menntamálum, velferðarmálum og innviðum sem fólkið í landinu kallar eftir. Það er ekki hægt að skjóta kostnaðinum við það að vanrækja þessa innviði inn í framtíðina. Við ætlum að ráðast í þessa uppbyggingu með ábyrgum hætti og með langtímasýn að leiðarljósi. Við ætlum að skilja offorsið eftir heima og vinna öðruvísi. Og við ætlum ekki að eyða þessari kosningabaráttu í að tala um Sjálfstæðisflokkinn og fylgihnetti hans. Þau geta hins vegar alveg haldið áfram að tala um okkur ef þau vilja enda liggur þeirra stefna fyrir í fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarpi.“
Rauði þráðurinn í þessu er ný sýn á stjórnmál. Stjórnmál opinnar umræðu, en ekki leyndarhyggju og þöggunar. Stjórnmál og stjórnmálamenn sem þora að segja „sækjum peningana þangað sem þeir eru til.“ Valið er því skýrt, góð útkoma VG tryggir þessa nýju sýn.
Katrín Jakobsdóttir er reyndur stjórnmálamaður og mannasættir. Ég trúi að hún geti leitt ríkisstjórn sem springur ekki á limminu vegna spillingarmála og leyndarhyggju, ríkisstjórn sem vinnur fyrir venjulegt fólk.
Í raun stendur valið á milli ríkisstjórnar velferðar undir stjórn Katrínar eða ríkisstjórn gamla tímans undir stjórn Sjálfstæðisflokksins og Bjarna Benedikssonar.
Vöndum valið! Gerum betur! X-V á kjördag.