Bæjarbúar geta nú sagt álit sitt á því hvert eigi að vera bæjarfjall Kópavogs. Fram kemur á heimasíðu Kópavogsbæjar, kopavogur.is, að könnunin standi yfir til 1. desember. Niðurstöðurnar verða kynntar í bæjarráði sem tekur ákvörðun um framhaldið. Gefnir eru upp fimm valmöguleikar en einnig er hægt að koma með aðrar tillögur. Allir bæjarbúar eru hvattir til að taka þátt.
Könnunin er gerð að frumkvæði Ómars Stefánssonar bæjarfulltrúa. Hann lagði fram tillögu um könnunina og var hún samþykkt í bæjarráði. Tillaga Ómars hljóðar svo:
„Legg til að gerð verði könnun á heimasíðu Kópavogsbæjar um hvaða fjöll komi til greina sem opinbert bæjarfjall Kópavogs. Meðal þeirra fjalla sem verði hægt að velja um verði Bláfjöll, Selfjall og önnur fjöll sem umhverfisfulltrúi telur koma til greina.“
Í lögsögu Kópavogs austan Elliðavatns eru tveir stórir landgeirar ofan Heiðmerkur með lítt röskuð svæði, þar má meðal annars finna nokkur fjöll. Nú er komið að bæjarbúum að kjósa um bæjarfjall Kópavogs en bæjarfjalli má lýsa á eftirfarandi hátt: stolt íbúa, tignarlegt og fagurt.
Hér eru nokkur fjöll í Kópavogi:
Vífilsfell: Toppur Vífilsfells er móbergstindur ofan á grágrýtisklettalögum Bláfjalla, en fellið er 655 m hátt. Það er vinsælt til gönguferða og þar var sett upp útsýnisskífa árið 1940 af Ferðafélagi Íslands.
Sandfell: Fellið er úr gömlu móbergi, en þar má einnig finna eldra grágrýti sem hraun hafa að nokkru runnið yfir. Af Sandfelli má sjá yfir höfuðborgarsvæðið, sérstaklega til austurs. Fellið er um 341 m.
Selfjall: Selfjall er lágreist en breitt frá vestri til austurs. Fjallið er úr gömlu móbergi, en á svæðinu er einnig eldra grágrýti sem hraun hafa að nokkru runnið yfir. Selfjall er í landi Lækjarbotna. Selfjall er sunnan Selhóla en austur af því er Sandfell. Selfjall er 269 m hátt og er þar talsvert útsýni.
Bláfjöll: eru lítt gróin móbergsfjöll, með klettabelti úr grágrýti efst og hraunþekju á sléttlendi, svokallaður fjallgarður. Þar er skíðasvæði höfuðborgarbúa og eru fjöllin á fólkvangi. Bláfjöllin eru um 7 km á lengd og 2 km þar sem þau eru breiðust. Bláfjöll eru innan Bláfjallafólkvangs.
Húsfell: er stakt fell sem stendur á miklu hraunflæmi, Húsfellsbruna, og er 288 m hátt.
Könnun: Hvert er bæjarfjall Kópavogs?