Framsóknarflokkurinn er nærri 100 ára gamall og elsti stjórnmálaflokkur landsins. Saga flokksins hefur markast af stórum sigrum sem varða landsmenn alla. Þar má nefna framgöngu flokksins í landhelgisdeilum, forystu í að koma á feðraorlofi og Barnahúsi og nú nýlega þau stóru mál sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafði forgöngu um að væru færð fram í góðu samstarfi við flokksmenn alla. Skuldaleiðréttingin sem kom 70 þúsund heimilum til góða ásamt uppgjöri við slitabú föllnu bankanna svo einungis tvö mál séu nefnd eru afrek sem lengi verða í minni höfð. Í kjölfar þessara aðgerða hefur hagur heimilanna í landinu vænkast mjög og staða ríkissjóðs gagnvart útlöndum hefur ekki verið betri síðan á síldarárunum. Nú sjáum við fram á að geta bætt enn betur,en gert hefur verið, aðstöðu öryrkja og aldraðra í kjölfar niðurstöðu nefndar um endurskoðun Almannatryggingakerfisins. Barátta flokksins fyrir bættu bankakerfi og gegn vaxtaokri hefur vakið athygli og mun halda áfram þar til verulegar endurbætur verða gerðar. Það má því með sanni segja að málefnastaða Framsóknarflokksins er mjög góð í aðdraganda kosninga og að loknu Flokksþingi verða stefnumál flokksins fyrir næstu kosningar kynnt.
Saga Framsóknarflokksins er ekki saga svæsinna innanflokksátaka þó átök hafi fylgt brotthvarfi Jónasar frá Hriflu úr stjórnmálum fyrir um 70 árum síðan. Framsóknarflokkurinn er lýðræðisafl og þar er hverjum og einum heimilt og kleift að sækjast eftir frama innan flokksins. Framsóknarmenn hafa einnig ætíð lagt sig fram um að leita lausna á viðfangsefnum sameiginlega og byggja flokksstarfið á samvinnu.
Það er óheppilegt að nú nokkrum vikum fyrir kosningar sé sótt að sitjandi formanni og flokkurinn rifinn á hol. Hætt er við að þessi atburðarás muni skerða möguleika flokksins á hagstæðri kosningu og mynda gjá milli flokksmanna. Það ríður því á að sitjandi formaður fái sterkan stuðning og góða kosningu ásamt samheldri stjórn á komandi flokksþingi.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Suð-vesturkjördæmi.