Íbúar í Hamraborg vilja bensínstöð Olís burt vegna eldhættu

Íbúar í Hamraborg hafa lengi verið á móti að bensínstöð sé staðsett við og undir íbúðum þeirra. „Bruninn í Skeifunni er hreinn barnaleikur ef eldur myndi kvikna í bensínstöðinni. Slökkviliðið myndi ekki ráða við neitt,“ segir íbúi sem ekki vill láta nafns síns getið í samtali við Kópavogsblaðið en segir að að megnan bensínfnyk leggi af bensínstöðinni. „Bensíngufur stíga upp og inn í íbúðir þegar tankbílar dæla í geymslutanka stöðvarinnar. Ég myndi ekki þora að grilla fyrir ofan bensínstöðina eða kveikja mér í sígarettu. Þessar bensíngufur eru auðvitað mjög eldfimar,“ segir íbúinn sem fullyrðir að bensínstöðin í Hamraborg hafi neikvæð áhrif á verðmæti fasteigna í kring.

Hefur verið í Hamraborg frá  því hún var reist.

Íbúðir í Hamraborg eru um 200 talsins. Þá eru ótaldar íbúðir í Fannborg fyrir norðan stöðina ásamt fjölda fyrirtækja í kring um og beint fyrir ofan bensínstöðina.

Í samningi um úthlutun og byggingarrétt fyrir Hamraborg 12, sem dagsettur er 27. september 1979 á milli Kópavogsbæjar og Borga sf, kemur fram að byggja skuli fimm hæða hús með bensínafgreiðslu á fyrstu hæð. Var Borgum sf. falið að gera samninga við olíufélag um byggingu þjónustustöðvar og leituðu þeir fyrst til Skeljungs sem ekki tókst að semja við, því næst til Olíufélagsins (Esso) og ekki tókst heldur að semja við þá. Að lokum var leitað til Olís og tókust samningar um þjónustustöðina. Bensínstöðin hefur því verið í Hamraborg frá því húsið var reist og hefur starfsleyfi fram til ársins 2021, samkvæmt heimildum Kópavogsblaðsins.

Staðsetning bensínstöðvarinnar í Hamraborg hefur lengi verið umdeild.
Staðsetning bensínstöðvarinnar í Hamraborg hefur lengi verið umdeild.

Ekki hlutverk íbúa að hólfa bensínstöðina af.

Húsfundur Hamraborgarráðsins, sem í eiga sæti eigendur fasteigna í Hamraborg 14 til 38, samþykkti í nóvember síðastliðnum harðorða áskorun þar sem skorað er á Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins að beita áhrifum sínum og valdi til að dælustöð Olís Hamraborg verði fjarlægð. „Eins og Slökkviliðið bendir sjálft á í bréfinu (til íbúa, innsk.) gæti í tengslum við þessa bensínstöð komið til eldsvoða sem slökkviliðið réði illa við,“ segir í ályktun íbúa. Þá benda íbúar á aukna hættu af því að nú geta menn dælt bensíni sjálfir þó stöðin sé að öðru leiti lokuð og starfsmenn fjarri. „Og nú eru víðsjárverðari tímar en áður. Við sjáum ekki að eldvarnarhurðir geti leyst þennan vanda svo fullnægjandi sé og undir engum kringumstæðum getur það verið hlutverk íbúanna að hólfa bensínstöðina af eða bera kostnað af slíkri hólfun,“ segja íbúar í Hamraborg í ályktun.

Olís umhugað um sátt

Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, segir að staðsetning bensínstöðvarinnar í Hamraborg hafi áður komið til umræðu. Fyrirtækið sé þó alltaf reiðubúið til viðræðna við bæjaryfirvöld og íbúa í Hamraborg. „Olís er mjög umhugað um að vera alltaf í góðri sátt við nágranna og að starfsemi okkar falli vel inn í umhverfið,” segir Jón Ólafur. „Ég hef fullan skilning á áhyggjum íbúanna við Hamraborg en það er hins vegar ekki óþekkt að bensínstöðvar séu starfræktar í húsnæði sem þessu út um allan heim. Við vöndum okkur alltaf við gæðaeftirlit og öryggismál. Bensínstöð Olís við Hamraborg hefur sitt starfsleyfi og uppfyllir allar þær öryggiskröfur sem gerðar eru fyrir starfsemi af þessu tagi.“

Slökkvilið vill samráð

Árið 2011 var gert áhættumat á höfuðborgarsvæðinu. Þar kom fram að einn helsti áhættuþátturinn voru bensínstöðvar, að sögn Jóns Viðars Matthíassonar, slökkviliðsstjóra. Kom í ljós að reglugerðir eru takmarkaðar sem gilda um rekstur þeirra í íbúahverfum. „Ég deili áhyggjum íbúanna af bensínstöðinni í Hamraborg þar sem þessi staðsetning er mjög óheppileg,“ segir Jón Viðar sem kallar eftir nánari samráði bæjaryfirvalda, íbúa, slökkviliðs og Olís til að finna leiðir sem allir geta sætt sig við. Ein þessara leiða gæti verið aukin nútímavæðing, að sögn Jóns Viðars, þar sem nýjasta tækni er notuð til að auka við öryggi. „Bensínstöðvar á höfuðborgarsvæðinu eru orðnar skuggalega margar og þegar við töldum þær síðast þá voru þær fleiri en grunnskólarnir,“ segir Jón Viðar.

Eiga lóð við Nýbýlaveg

Olís eignaðist eftirsótta lóð við Nýbýlaveg árið 1974 eftir eignanám Kópavogsbæjar í landi Lundar, nánar tiltekið gegnt gamla Toyota húsinu í Lundahverfinu á horni Nýbýlavegar og Kringlumýrarbrautar. Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, segir að möguleg uppbygging nýrrar þjónustustöðvar við Nýbýlaveg og hugsanlegur flutningur bensínstöðvarinnar úr Hamraborg séu tvö aðskilin mál. „Við höfum lagt drög að hönnun að nýrri þjónustustöð við Nýbýlaveg en það mál var í biðstöðu um nokkurt skeið á meðan óljóst var um framtíðalegu Nýbýlavegs. Við höfum í þessari vinnu lagt okkur fram um að þessi stöð taki mið af fallegu umhverfi í dalnum og muni þjóna Kópavogsbúum vel í framtíðinni enda vel staðsett.“

íbúar sem Kópavogsblaðið hefur rætt við segjast mjög samstíga og einbeittir í að koma stöðinni í burtu sem allra fyrst og hafi óskað eftir aðstoð Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins til þess. Ekkert annað sé í stöðunni þar sem þeir segjast vera dauðhræddir við sprengihættu og reyk sem myndi leggjast yfir hverfið ef eldur kviknar í bensínstöðinni í Hamraborg.

bensinstöð hamraborg

Umræðan

Fleiri fréttir

Össur Geirsson er heiðurslistamaður Kópavogs

Össur Geirsson er heiðurslistamaður Kópavogs 2024 og var valið kynnt við hátíðlega viðhöfn í Tónhæð, húsnæði Skólahljómsveitar Kópavogs.  Elísabet Berglind Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Kópavogs og formaður lista- og menningarráðs, afhenti

Brugðist við vopnaburði barna og ungmenna

Flýta á innleiðingu forvarnarverkefnis í KópavogiTala opinskátt um ofbeldi í öllum grunnskólum, frístund og félagsmiðstöðvum barna Menntaráð Kópavogs fjallaði um viðbrögð og forvarnir vegna ofbeldis og vopnaburðar barna og ungmenna

Heitar umræður um merki Pírata

Á aðalfundi Pírata í Kópavogi um liðna helgi var ný stjórn félagsins kjörin. Fundurinn var haldinn samhliða aðalfundum Pírata í Reykjavík, Ungra Pírata og Pírata í Suðvesturkjördæmi líkt og í

Gatnaframkvæmdir hafnar í Vatnsendahvarfi

Framkvæmdir við jarðvinnu og lagnir í Vatnsendahvarfi eru hafnar. Til að halda upp á áfangann tók bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir fyrstu skóflustungu að götunni Hæðarhvarfi. Árni Geir Eyþórsson, framkvæmdastjóri Jarðvals

Gamlar fréttir úr sarpinum

OFV4
Ashildur Bragadóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs.
sundbíó2
mynd-6
Hjalmar_Hjalmarsson
2013-09-15-1778
boda
selfjall_2
Hopp