„Íbúar í Kópavogi geta orðið skuldlausir á örfáum árum.“

Hugmyndin um samfélagsbanka skaut nýlega upp kollinum þegar Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, lagði til að Landsbankinn yrði rekinn sem slíkur. Bankinn yrði þá í eigu ríkisins sem myndi skila lágmarks arðsemi og væri leiðandi í því að halda vaxtamun og bankakostnaði niðri. Stjórnmálaflokkurinn Dögun hefur haft samfélagsbanka á stefnuskrá sinni þar sem áhersla er lögð á að arður af starfsemi hans myndi renna aftur til bankans sem yrði nýttur til að lækka vexti viðskiptavina eða samfélagslegra verkefna. Hugmyndasmiðurinn Pálmi Einarsson, sem er fæddur og uppalinn í Kópavogi, vill taka skrefið lengra; að Kópavogsbær, fyrirtæki í bænum og bæjarbúar stofni saman samfélagsbanka og leggi þangað inn allar tekjur og njóti ávaxtanna í sameiningu til að greiða niður skuldir.

Pálmi Einarsson talar í lausnum. Enda var hann í um 20 ár hönnuður, verkefna- og þróunarstjóri hjá Össuri í spelku- og stoðtækjadeild fyrirtækisins áður en hann söðlaði um og stofnaði Geislar hönnunarhús árið 2012. Fyrirtækið sinnir hönnunarráðgjöf ásamt því að hanna og framleiða yfir 100 eigin vörur, módelleikföng og gjafavörur sem seldar eru í verslunum víðs vegar um landið. Pálmi var einn af þeim sem komu að stofnun flokks Pírata í Kópavogi og hefur sterkar skoðanir á fjármálakerfi heimsins. „Eitt allra stærsta vandamál samtímans bæði hér á landi og erlendis er spilling stjórnmálamanna og í banka- og peningakerfi heimsins,“ segir Pálmi alvörugefinn. „Persónulega efast ég um að bankar á Íslandi og annars staðar séu í raun lögleg fyrirtæki þar sem þú getur ekki lengur lifað án þess að vera með bankareikning. Launin þín og allar greiðslur til og frá samfélaginu fara í gegnum banka. Ef svo er þá eru vextir og önnur gjöld sem einkabankar rukka fyrir „þjónustu“ sína ekkert annað en skattur. Ef einkafyrirtæki geta krafist þess að fólk borgi þeim skatta erum við illa stödd. Það er hins vegar orðinn raunveruleiki og hefur sú staðreynd kostað okkur öll gríðarlega fjármuni svo ekki sé talað um áhrifin á heilsu fólks.“

Hver ætti útfærslan og ávinningur af samfélagsbanka að vera?
„Hugmyndin af samfélagsbanka á rætur sínar að rekja til bankahrunsins bæði hér sem og erlendis. Eftir hrun fóru margir að velta því betur fyrir sér hvernig einkabankar og eða peningakerfið okkar virkar. Bankar framleiða ekkert, engar vörur og skapa engin raunveruleg þrívíð verðmæti vegna þess að tölur á pappír eru ekki verðmæti. Það er nokkuð ljóst að við lifum ekki á pappír. Þá fer fólk að spyrja hvernig á því standi að einstaklingar geti fengið „einkaleyfi“ á að búa til peninga úr engu. Þá verður lítið um önnur svör en að svona sé þetta bara. Við sem höfum unnið við hönnun horfum vanalega á nokkra þætti þegar við hönnum eitthvað nýtt. Við skoðum fortíðina; hvað virkaði og hvað virkaði ekki og af hverju virkuðu eða virkuðu ekki hlutirnir. Síðan er farið af stað og reynt að koma með nýjar lausnir sem virka betur en það sem áður var prófað. Við lærum sem sagt af reynslunni. Til eru nokkrar gerðir af samfélagsbönkum en sennilega er North Dakota bankinn frægasta dæmið eða sænski JAK bankinn. En þar sem peningakerfi heimsins er allt meira og minna tengt saman og mjög erfitt virðist vera að breyta því þá hef ég sjálfur lagt til að sveitarfélög stofni sína eigin banka. Þá mætti reka á nákvæmlega sama hátt og aðrir einkabankar eru reknir í dag nema að arðurinn myndi skiptast niður á viðskiptavini bankans en ekki örfáa eigendur.“

Hvernig myndi slík skipting líta út?
„Ég get tekið sem dæmi að árið 2013 skilaði íslenskur einkabanki 23 milljörðum í arð og hafði afskrifað skuldir upp á 550 milljarða. Í Kópavogi búa um 30 þúsund manns og ef þú deilir arði þessa einkabanka niður á hvert mannsbarn í Kópavogi þá eru það um 770 þúsund á hvern einstakling. Á mínu heimili eru 5 manneskjur. Það væri fín uppbót fyrir okkur, á hverju ári, ef við gefum okkur að viðskiptavinir þessa umtalaða einkabanka væru 30 þúsund talsins,“ segir Pálmi. „Ég vil taka það fram að ef þú tekur afskriftirnar sem þessi sami einkabanki gerði árið 2013, sem voru 550 milljarðar þá eru það um 18,3 milljónir á haus. Það myndi þýða að íbúar í Kópavogi yrðu skuldlausir á örfáum árum ef þeir bara tækju sig saman og stofnuðu sinn eigin banka og myndu reka hann með sama rekstarfyrirkomulagi og þekkist í dag. Eini munurinn yrði að það væru fleiri hluthafar sem væru um leið viðskiptavinir bankans. Þeir myndu fá arðinn skipt á milli sín sem er í mínum huga sanngjarnt þar sem arðurinn er tilkominn með veltu einstaklinga og fyrirtækja.“

Er þetta raunhæft, myndi þetta ganga upp? Yrði þetta fyrirkomulag ekki ávísun á sovéska spillingu? Risavaxinn banki í eigu margra. Hver á að stjórna honum?
„Það er svo einkennilegt að spilling virðist oft grassera í ríkis- eða sveitarfélagsrekstri. Hjá einkareknum fyrirtækjum fer hins vegar mjög lítið fyrir því. Sjálfur tel ég að við eigum að horfa til einkafyrirtækja, hvernig þau eru rekin og reyna að læra af því og tileinka okkur sambærilegt rekstrarform. Með tilkomu internetsins væri hægt að vera með alla eigendur bankans í stjórn fyrirtækisins sem geta þá tekið þátt í þeim ákvörðunum og markmiðum sem stjórnendur bankans setja,“ segir Pálmi og útskýrir hugmyndina betur. „Ef þú ert með reikning í banka, þá ertu einnig með heimabanka sem er aðgengilegur á netinu. Til þess að tryggja að þú sért eingöngu með aðgang að þínum bankamálum þá ertu með öryggislykil. Vel væri hægt að setja upp svæði á heimabanka þar sem markmið bankans væru listuð og gefa síðan eigendum bankans tækifæri á að kjósa hvaða markmið þeir væru sammála um og einnig til að forgangsraða verkefnum. Eigendur og stjórn gætu einnig ráðið stjórnendur með rétta reynslu, mentun og þekkingu til að reka fyrir okkur bankann. Reksturinn ætti að geta verið það gagnsær að hvaða eigandi sem er gæti fylgst með gangi mála og haft áhrif á stjórnunina. Ef viðskiptavinur er með gögn um að einhver stjórnandi sé að gera eitthvað sem gæti talist til spillingar eða glæps væri hægt að „flagga“ viðkomandi starfsmann og leggja fram gögn, málinu til stuðnings. Ef meðeigendur eru sammála um brot starfsmanns þá er það eina sem þarf að gera er að „líka“ við „flaggið“ eða ekki. Ef meirihluti eigenda, eða hvaða % atkvæða sem eigendur telja sé sú rétta er náð, yrði viðkomandi umsvifalaust vísað úr starfi og staðan auglýst laus til umsóknar. Ef eigendur fá að kjósa stjórn og einnig koma að ráðningu stjórnenda ætti að vera hægt að tryggja að bankinn væri rekinn samkvæmt uppsettum markmiðum, rétt eins og er í flestum öðrum einkafyrirtækjum.“

Hver hafa viðbrögðin verið við þessari hugmynd?
„Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa og margir farnir að skoða og tala um þennan möguleika. Það er mjög athyglisvert í umræðunni hérna heima vegna þess að bankarnir voru einkavæddir strax aftur eftir hrun eða seldir á miklum afslætti. Núna er farið að tala fyrir því að einkavæða Landsbankann, eina bankann sem er enn í eigu þjóðarinnar. Ég verð furðu lostinn þegar ég heyri slíkt. Ef fólk sér ekki að það voru gerð mistök með einkavæðingu bankanna sem fyrst borguðu eigendum sínum stjarnfræðilegar upphæðir í arð, töpuðu svo stjarnfræðilegum upphæðum landsmanna og skuldsettu börn okkar langt fram í tímann, þá er eitthvað verulega mikið að í stjórn landsins. Að gera sömu mistökin tvisvar án þess svo mikið sem reyna að laga það sem áður fór úrskeiðis hlýtur að teljast ámælisvert. Ef um ásetning er að ræða ætti umsvifalaust að víkja þeim úr ábyrgðarstöðum sem sinna þeim fyrir okkar hönd,“ segir Pálmi og er heitt í hamsi. „Hvernig sem bankar verða í framtíðinni þá er eitt alveg klárt. Samkvæmt þeim tölum sem ég hef heyrt þá skuldar heimurinn allur um 40 trilljónir dollara. Allur heimurinn er 40 trilljónir dollara í skuld og skulda þeim sem eru með einkaleyfi á að búa til peninga. Þetta er rugl. Ef þú ert mínus 40 trilljónir í yfirdrætti og eini staðurinn sem býr til nýja peninga er hjá þeim sem þú skuldar þá liggur það í hlutarins eðli að skuldin verður ekki greidd. Þá hlýtur að vakna sú spurning hvernig eigum við að stunda viðskipti okkar á milli með það sem við framleiðum. Peningavandamál heimsins verður ekki að mínu mati leyst á Íslandi. Þess vegna hef ég einfaldlega lagt til að hafa fleiri eigendur að bankanum sem þá geta ákveðið hvort arðurinn er tekinn út, lækki vexti eða afskrifi skuldir. Sem dæmi þá ætti að vera mjög einfalt mál fyrir Kópavogsbæ að stofna sinn eigin banka og nota í höfuðstól innkomu sveitarfélagsins sem kemur í formi fasteignagjalda og fleira en samkvæmt skýrslu bæjarins voru tekjurnar árið 2013 um 20 milljarðar. Síðan myndi sveitarfélagið biðja fólkið sem þar býr að koma í viðskipti við sig í stað einkabanka sem er í eigu örfárra aðila.“

Auk samfélagsbanka hefur þú einnig verið að kynna hugmyndina um „Edengerða Íslands“ Í hverju felst hún?
„Ég fór að ræða þetta til að benda á þau tækifæri sem við Íslendingar höfum þegar kemur að auðlindum okkar og þar sem mér persónulega hefur fundist mjög illa farið með þær og lítið skila sér til eigenda þeirra. Hugmyndin snýst um að nota betur þær auðlindir sem við eigum eins og rafmagn, heitt og ferskt kalt vatn. Í stað þess að selja orkuna á heildsöluverði sem hingað til hefur skilað mjög litlum arði til barna okkar þá hef ég lagt til að við framleiðum matvæli úr orkunni. Eftirspurn eftir matvælum mun ekki minnka og nú þegar við erum að fá 1-2 milljónir gesta á ári hverju til landsins sé ég mikið tækifæri í því að við snúum okkur að matvælaframleiðslu í stórum stíl, eins og frændur okkar Danir. Ef þeir gestir sem hingað koma gætu valið á milli vínberja sem ræktuð eru hér með íslensku vatni eða innfluttra er ég ekki í nokkrum vafa um hvað flestir myndu velja. Ef rétt er staðið að sáningu þá ættum við að fá daglega eða vikulega uppskeru af hvaða mat sem er og virði uppskerunnar yrði gríðarleg þar sem einungis væri um að ræða startkostnað í byggingum sem hýsa ætti framleiðsluna. Þær væri hægt að afskrifa á fáum árum,“ segir Pálmi og heldur áfram. „Ef þú ert með gróðurhús fellur til töluvert af grænum úrgangi en hann er hægt að nota í áburð en einnig til að rækta lirfur sem laxa- og silungaseiði nærast á. Seiðunum yrði síðan sleppt í hafbeit en mjög góð reynsla er af slíkum sleppingum hér á landi til dæmis í Rangá en þar skila sér um 2-4% af slepptum seiðum sem fullvaxta laxar um það bil ári eftir sleppingu. Þar sem lirfur eru aukaafurð úr gróðurhúsi þá kostar mjög lítið að rækta þær en í dag kostar eitt stykki laxaseiði um 130 krónur. Ef við gefum okkur að 3% komi til baka sem stálpaður lax um það bil ári eftir sleppingu og þú sleppir 2 milljónum seiða þá ætti um 90 tonn af ferskum, náttúrulegum, laxi að skila sér rúmlega ári síðar. Ef verðið er 1.500 krónur á kíló þá gerir það 135 milljónir. Hafa ber í huga að 2 milljónir seiða er ekki mikið. Það gæti verið töluvert meira. Þau seiði sem ekki skila sér til baka fara ekki til spillis heldur er eitthvað annað í náttúrunni sem fær það sem æti. Úrgangurinn úr flökuninni færi síðan aftur í moldu/áburð/lirfu ræktun en roðið sjálft gæti farið í annað, til dæmis minjagripi. Ég hef einnig lagt til að tengja dvalarheimili aldraðra við slíkar framleiðslur. Tilvalið væri að bjóða öldruðum og öryrkjum að taka þátt í rekstrinum og eða vera með svæði til eigin ræktunar. Hótel- og veitingarekstur ásamt ferðaþjónustu og ráðstefnuhaldi er einnig eitthvað sem hægt væri að tengja við slíkar framleiðslur en sjálfur tel ég okkur Íslendinga geta orðið leiðandi á þessu sviði á örfáum árum og framleitt allt það sem okkur langar til og flutt umfram framleiðslu úr landi með miklum arði. Slíkar framleiðslur gætu vel stutt við „Inspired by Iceland“ markaðsátakið. Við, sem meðvitaðir einstaklingar, verðum að hætta að hugsa bara fjögur ár fram í tímann og gera áætlanir sem ná yfir lengri tíma þar sem hugsunin snýr að því að skila betra búi til afkomenda okkar en gert hefur verið.“

EdengardarYfirlit

Hverjar eru þá helstu hindranir í veginum?
„Í dag eru helstu hindranirnar aðgerða- og skilningsleysi stjórnvalda fyrir tækifærunum sem þarna liggja. Stjórnvöld gætu beitt sér fyrir því að þeir sem framleiða matvæli fái sama verð á heitu vatni og raforku og stóriðjan fær. Ef stjórnvöld eru tilbúin að borga úr eigin vasa tugi milljarða svo erlendir aðilar geti sett hér upp kísil- eða álframleiðslur út um allt land ætti alveg eins að vera hægt að setja nokkra milljarða í matvælaframleiðslur. Ég hef lagt til að sveitarfélög eignist slíkar verksmiðjur og veiti þannig atvinnu- og fæðuöryggi á sínu svæði fyrir íbúa og eigendur sína. Helstu hindranir fyrir samfélagsbanka virðist fyrst og fremst vera skilningleysi og spilling þegar kemur að virkni banka og því hlutverki sem þeir gegna í samfélögum.“

Lumar þú á fleiri hugmyndum sem vert er að greina frá?
„Framleiðsla á iðnaðarhampi er eitthvað sem ég hef tengt við Edengarðana en hægt væri að fá bændur landsins í lið með okkur og fá þá til að framleiða iðnaðarhamp. Iðnaðarhampur er að ryðja sér til rúms víða um heim í dag en hér áður fyrr var þetta eitt allra besta hráefni sem völ var á. Hér á Íslandi er enn til fyrirtæki sem heitir Hampiðjan sem vann reipi og striga úr rússneskum hampi. Þegar olía og plast, unnið úr olíu, fór að ryðja sér til rúms drógst notkun iðnaðarhamps mikið saman og var á endanum bannaður. Í dag er talið að iðnaðarhampur sé tíu sinnum verðmætari uppskera en korn og hafa nú nokkur fylki í Bandaríkjunum leyft iðnaðarhamp aftur. Hampurinn er síðan notaður í umbúðir, pappír, föt, málningu, olíur og plast og er listinn nánast ótæmandi. Íslenskir bændur gætu því drýgt tekjur sínar í framtíðinni með ræktun á iðnaðarhampi en hann mætti síðan nota í umbúðir fyrir það sem framleitt væri í gróðurhúsunum. Einnig tel ég sanda landsins upplagða fyrir hampræktun. Á Mýrdalssandi hefur uppgræðsla með lúpínu gengið mjög vel og er þar kominn fínn jarðvegur. Þar væri gaman að plægja niður í sandinn og prófa að rækta hamp í þeim jarðvegi. Ég tel að svarti sandurinn gæti haldið ágætis hita á jarðveginum og því gæti hampur eða annað vaxið vel á þessum stöðum, þar sem búið er að koma jarðvegi af stað með lúpínuræktun,“ segir Pálmi og gerir hlé á máli sínu.  „Ég vil taka það skýrt fram að ég tel mig ekki hafa lausnir á öllum okkar vandamálum, síður en svo, en það sem ég hef hins vegar lært á því að starfa í einkageiranum er að vandamál eru varla til því einhvers staðar er einhver sem kann og veit. Með tilkomu internetsins ertu með allar lausnir heimsins í hendi. Það eina sem þarf til að nálgast þær er örlítill tími og fjármunir til að ráða fólk sem ráðgjafa og eða starfsmenn til að leysa málin. Ég tel sjálfur að ef við viljum sanngjarnara og betra samfélag verðum við sjálf að taka meiri þátt. Til þess að það sé hægt verðum við að nýta nútímaþekkingu og samskiptamáta. Internetið gerir okkur kleift að taka þátt með því að „líka við“ eða „líka ekki við“ færslu. Þegar lýðveldið var stofnað árið 1944 var ekki tæknilega framkvæmanlegt að allir tækju þátt og var því ákveðið að kjósa fulltrúa fjöldans til að fara með málefni mismunandi hópa og það hefur skilað okkur hingað. En betur má ef duga skal. Á næsta ári er lýðveldi Íslands 72 ára og sé ég vel fyrir mér að stýring og stjórnun samfélaga færist yfir á netheima þar sem allir geta tekið þátt í þeim ákvörðunum sem þarf að taka og fylgst með því sem stjórnendur samfélagsins eru að gera. Núverandi þjóðaratkvæðargreiðsluform er eins úrelt eins og hægt er að hugsa sér. Að halda slíkar atkvæðagreiðslur er gríðarlega dýrt. Ef sett yrði upp vefsíða þar sem hægt væri að skrá sig með rafrænu skilríki ætti að vera hægt að gera þjóðaratkvæðargreiðslur ódýrari. Ísland myndi henta mjög vel í tilraunir með slíkt fyrirkomulag. Eins og ég áður sagði þá er eiginlega ekkert sem ekki er hægt að leysa. Það eina sem vantar er einhvers konar kerfi sem gerir fólki kleift að taka þátt.“

Nú tókst þú þátt í stofnun Pírata í Kópavogi en hefur þú hugsað þér að blanda þér eitthvað meira í stjórnmál?
„Það eru komnar hugmyndir um að taka þátt í næstu forsetakosningum og erum við að kanna áhuga fólks á því og hvort stuðningur fyrir því sé til staðar. Það sem ég myndi leggja upp með, ef af verður, myndi snúa að sjálfbærni landsins svo og að koma landinu í átt að beinu lýðræði þar sem nútíma samskiptatækni er nýtt. Sjálfur tel ég okkur Íslendinga vera vel í stakk búna til að leiða slíkar breytingar á heimsvísu. Þegar kemur að langtímamarkmiðum okkar Íslendinga þá þarf fjöldinn að fá að koma að þeirri markmiðagerð. Það er fjöldinn sem veit og kann allt.“

Umræðan

Fleiri fréttir

Leifur Eiríksson Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar, Unnar Atli Guðmundsson plokkari, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og Ásthildur Helgadóttir sviðsstjóri umhverfissviðs.

Plokkari ársins

Unnar Atli Guðmundsson er plokkari ársins í Kópavogi. Bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir heiðraði Unnar í Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar en þangað sækir Unnar ruslapoka fyrir plokkið, sem unnið er í sjálfboðavinnu. Unnar

Aðventuhátíð Kópavogs

Aðventuhátíð í Kópavogi verður haldin með pompi og pragt, laugardaginn 30. nóvember. Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri tendrar ljósin á jólatré Kópavogsbæjar við menningarhúsin við hátíðlega athöfn kl. 17. Jólasveinar bregða á

Fjárhagsáætlun samþykkt

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs að lokinni seinni umræðu í vikunni Einnig var samþykkt þriggja ára áætlun fyrir tímabilið 2026-2028. Í tilkynningu frá Kópavogsbæ segir að

Sóley heimsmeistari

Sóley Margrét Jónsdóttir varð í síðustu viku heims­meist­ari í kraft­lyft­ing­um með búnaði í +84 kg flokki og tryggði sér um leið réttinn til að keppa á Heimsleikunum (World Games) sem