ÍK, Íþróttafélag Kópavogs, hefur verið stofnað á nýjan leik. ÍK var fyrst stofnað árið 1976 en var lagt niður árið 1991 og knattspyrnudeild HK stofnuð. Í byrjun verður áhersla lögð á iðkun knattspyrnu bæði drengja og stúlkna ásamt meistaraflokki og verður félagið þátttakandi á Íslandsmótinu 2016, samkvæmt upplýsingum Kópavogsblaðsins. Þá verða einmitt 40 ár frá því félagið var fyrst stofnað. Merki félagsins og þverröndóttu grænu og hvítu búningarnir verða þeir sömu og áður. ÍK hyggst sækja um æfinga- og félagsaðstöðu í Fagralundi í Fossvogsdal og vera virkur aðili í íþróttaþjónustu við bæjarbúa í nærumhverfinu í norðurhluta Kópavogs nú þegar HK er flytja í Kórinn. ÍK hafði einmitt fengið það svæði úthlutað á sínum tíma. Mikil ánægja ríkir meðal gamalla ÍK-inga með endurkomu félagsins enda eiga margir góðar minningar frá ÍK árunum. Efnt verður til framhaldsaðalfundar fljótlega á nýju ári þar sem gamlir og nýir félagsmenn eru velkomnir að gerast stofnfélagar. Formaður ÍK er Sigvaldi Einarsson.