Hjónin Sigriður Bjarnadóttir og Guðmundur B. Kristmundsson fengu viðurkenningu umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogs á dögunum fyrir Birkihvamm 7. Þau hafa búið í þessu fallega húsi frá árinu 1985 ásamt börnum sínum.
Húsið var byggt á árunu 1954 – 1956. Það er hæð og ris og stendur nokkuð hátt, með góðu útsýni. Þegar Sigríður og Guðmundur fluttu í húsið var garðurinn umhverfis það einungis þakinn grasi sem var í hálfgerðri órækt. Hann var ekki afmarkaður með garði eða hleðslu og bílastæði var einungis mold og sandur. Í garðinum var aðeins að finna tvö lágvaxin reynitré á bak við bílskúrinn.
Smám saman fóru hjónin að tína í hann blóm og tré. Nú eru í garðinu 126 tegundir plantna og þá eru ekki meðtalin sumarblóm og grænmetisplöntur.
Þau Sigríður og Guðmundur segja gott að búa í Birkihvammi. Húsið er hlýlegt og hefur að geyma góðan anda. Umhverfið er notalegt, vel gróið og veðursæld líklega með því besta sem gerist á höfuðborgarsvæðinu.
Við litum í heimsókn til þeirra sómahjóna á dögunum, sem sýndu okkur verðlaunagarðinn sinn.