
Nýlega var haldin íþróttahátíð Kópavogs þar sem afreksfólk í hinum ýmsu íþróttagreinum fékk viðurkenningu fyrir árangur sinn undangengið ár. Hápunktur hátíðarinnar var kjör á íþróttakonu og íþróttamanni Kópavogs. Eins og fram hefur komið þá hlutu þau Sóley Margrét Jónsdóttir kraftlyftingakona og Höskuldur Gunnlaugsson knattspyrnumaður þá eftirsóknarverðu nafnbót. Eru þau afar vel að henni komin.
Öll erum við hreykin af afreksfólki okkar og fátt sameinar okkur jafn rækilega og íþróttirnar. Þeir einstaklingar og hópar sem skara fram úr fá yfirleitt mikla og jákvæða athygli. Athyglin er þessu keppnisfólki jafnan innblástur og hvetur það til að leggja enn meira á sig og setja markið hærra.
Öllum ætti að vera ljóst að hlutverk íþróttafélaga í okkar samfélagi er mikilvægt. Þeirra starfi er stundum skipt í tvo megin þætti, annars vegar æskulýðsstarf og hinsvegar afreksstarf. Þessum þáttum er stundum stillt upp sem andstæðum pólum sem þeir eru alls ekki. Æskulýðsstarfið sækir fyrirmyndir í afreksstarfið sem aftur sækir sinn grunn í öflugt æskulýðsstarf. Hvorugt getur því án hins verið.
Þúsundir iðkenda notfæra sér þjónustu íþróttafélaganna í Kópavogi á degi hverjum. Þjónustunnar sem krafist er af félögunum verður ekki til af sjálfri sér. Á bakvið hana liggur mikil vinna starfsmanna sem oft vinna undir miklu álagi. Stjórnir félaganna eru síðan mannaðar sjálfboðaliðum sem gefa vinnu sína – oftast að afloknum hefðbundnum vinnudegi. Vel má spyrja hversu lengi slíkt fyrirkomulag getur gengið því í nútíma samfélagi virðist það verða sífellt erfiðara að fá fólk til að gefa tíma sinn.
Aðstaða til íþróttaiðkunar í Kópavogi er góð enda ríkt um það góð sátt undanfarna áratugi að ráðstafa miklum fjármunum til fjárfestinga í íþróttamannvirkjum. Góð aðstaða er grunnur undir öflugu félagsstarfi og ljóst að uppbygging síðustu áratuga á sinn þátt í því hversu framarlega íþróttafélögin í bænum standa. Mikilvægt er að sofna ekki á verðinum heldur halda uppbyggingunni áfram því iðkendum fjölgar stöðugt með auknum og breyttum kröfum.
Kópavogur er í fararbroddi hvað öflugt íþróttastarf varðar. Mikilvægt er að viðhalda þeirri stöðu og gott betur.