Það dylst engum sem leið eiga um Kársnesið að byggðin nyrst og vestast er að taka miklum og jákvæðum breytingum. Kópavogsbær hefur lagt áherslu á þéttingar- og þróunarsvæði undanfarin ár og er Kársnesið gott dæmi um slíkar breytingar. Bryggjuhverfið er svo gott sem risið, það setur svip sinn á sjávarsíðuna norðan megin á Kársnesinu og er afar vel heppnað.
Sitt hvoru megin við bryggjuhverfið er svo verið að huga að stúdentagörðum og möguleikum á að byggja með hagkvæmum hætti fyrir fyrstu íbúðarkaupendur. Annars vegar yrðu stúdentagarðarnir reistir við brúarstæði væntanlegrar brúar yfir Fossvog, steinsnar frá Háskólanum í Reykjavík. Hins vegar yrðu íbúðirnar þar sem markhópurinn væru fyrstu kaupendur á lóðinni austan við Landsrétt. Verið er að þróa þessar hugmyndir en þær eru spennandi og staðsetningin frábær fyrir þennan aldurshóp sem myndi sannarlega auka og lífga upp á íbúaflóruna á Kársnesinu.
Þegar Borgarlína og brú fyrir Fossvog rís verður Kársnesið mjög vel tengt við fjölmennustu vinnustaði Íslands þ.e.a.s. báða háskólana, Landsspítalann og stjórnaráðsþyrpinguna. Staðsetning Kársness á höfuðborgarsvæðinu er frábær og með betri tengingum verður hún alveg einstök.
Þéttingu byggðar fylgir aukið mannlíf og þjónusta og ég er ekki í nokkrum vafa um að sú verður raunin á Kársnesinu. Við Hafnarbraut / Bakkabraut eru nokkur fjölbýlishús ýmist í byggingu eða risin. Sum þeirra gera ráð fyrir atvinnuhúsnæði á jarðhæð og eru fyrirtæki þegar byrjuð að hasla sér völl í húsunum.
Vestast er svo baðlónið Sky Lagoon á lokametrunum. Það er reist af miklum metnaði og eiginlega ekki hægt að lýsa því í orðum en óhætt að segja að sjón er sögu ríkari. Baðlónið verður skemmtileg viðbót við þá afþreyingu sem þegar stendur til boða í bænum okkar fyrir íbúa, nærsveitunga og ekki síst ferðamenn.
Uppbygging í Kópavogi hefur tekið miklum breytingum síðustu ár með bættri landnýtingu við þéttingu byggðar. Mörg þessara verkefna hafa eðli málsins samkvæmt tekið langan tíma þar sem mörg hús hafa þurft að víkja við breytingarnar. Í ljósi þess að Kópvogur er staðsettur á miðju höfuðborgarsvæðinu spilar hann stórt hlutverk í þéttingunni. Því var spáð fyrir um þremur árum að íbúum höfuðborgarsvæðisins myndi fjölga um 70.000 manns til ársins 2040. Það samsvarar íbúafjölda Kópavogs, Garðabæjar og Hafnafjarðar. Þetta sýnir okkur hversu mikilvægt það er að nýta vel landkosti bæjarins.