Lánshæfi Kópavogs helst óbreytt í mati Reitunar en horfur uppfærast úr stöðugum í jákvæðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsbæ. Reitun spáir hækkun á lánshæfismati í kjölfar ársuppgjörs bæjarfélagsins, ef ekkert óvænt kemur fram.
Í matinu segir að breytingin í horfunum sé tilkomin vegna vísbendinga um áframhaldandi styrkingu efnahags sveitarfélagsins, góðrar arðsemi, eftirspurnar eftir lóðum og jákvæðum horfum í efnahagsmálum.
„Það eru góðar fréttir fyrir bæjarbúa að horfur séu góðar í lánshæfi bæjarins og að það stefni í að lánshæfismatið hækki. Betra lánshæfismat skilar sér í betri vaxtakjörum og lægri útgjöldum fyrir bæinn, það njóta allir góðs af því. Undanfarin ár hefur lánshæfismatið hækkað sem er afrakstur ábyrgra fjárhagsáætlana sem hefur verið fylgt vel eftir,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri.
Bent er á að þrátt fyrir jákvæðar horfur þá þurfti sveitarfélagið áfram að gæta aðhalds í kostnaði og fjárfestingum þannig að skuldahlutfall bæjarins haldi áfram að lækka.
Lánshæfi Kópavogs er nú iA2 en það hækkaði um tvo flokka á síðasta ári, í i.A2 úr i.BBB1.