Jafnaðarstefnan er sú pólitíska stefna sem hefur náð bestum árangri í heiminum. Þau samfélög þar sem jafnaðarstefnan hefur verið leiðandi mælast hæst á öllum alþjóðlegum stöðlum um efnahag, menntun og heilbrigðiskerfi til að nefna nokkra. Það eru meiri líkur á því að þér gangi vel efnahagslega í Danmörku heldur en t.d. í Bandaríkjunum, landi frelsisins.
Jafnaðarstefnan snýst ekki um að allir skuli vera jafnir, að enginn megi skara framúr. Að allir skuli hafa sömu laun óháð vinnuframlagi, að allir skuli búa í eins húsnæði. Jafnaðarstefnan snýst um að veita öllum jöfn tækifæri til að ná árangri í lífi sínu. Sjá til þess að allir geti notið menntunar óháð efnahag og stöðu í þjóðfélaginu. Sjá til þess að allir fái notið heilbrigðisþjónustu þegar nauðsyn krefur óháð efnahag. Við viljum sjá til þess að í samfélaginu til sé öryggisnet þannig að þeir sem verða fyrir áfalli vegna veikinda eða fötlunar geti lifað mannsæmandi lífi. Sjá til þess að öllum sé tryggt húsnæði á viðráðanlegu verði. Einkavæðing í skóla- og heilbrigðismálum er ekki lausnin.
Þetta er aðalatriðið í stjórnmálum á Íslandi í dag. Eini flokkurinn sem hefur barist fyrir stefnu jafnaðarmanna hér á landi er Samfylkingin. Sú barátta byggir á traustum grunni og reynslu, það skiptir máli þegar takast þarf á við miklar áskoranir í samfélaginu. Traust og trúverðugleiki stjórnmálafólks er lykilatriði í stjórnmálum, okkar fólk á Alþingi hefur staðið vaktina af kostgæfni og mun gera það áfram. Við viljum meira af slíku á Alþingi og því hvet ég alla jafnaðarmenn til að leggja okkur lið í baráttunni framundan.