Mikil umræða hefur verið um þann ritfangakostnað sem foreldrar hafa borið í skólabyrjun. Hjá efnaminni foreldrum getur sá kostnaður náð meir en tug þúsunda ef börnin eru mörg. Undirritaður sem setið hefur í skólanefnd nú Menntaráð Kópavogsbæjar hefur bent á þennan kostnað og látið kanna hver þessi kostnaður er í raun. Í framhaldi af þeirri könnun hefur eftirfarandi málamiðlun verið samþykkt í Menntaráði:
Menntaráð – 11. fundur – 09.06.2017:
7.1110178 – Kostnaður foreldra við grunnskólagöngu barna sinna. Menntaráð fagnar frumkvæði grunnskóla í Kópavogi að lækka ritfangakostnað fjölskyldna vegna skólagöngu barna. Það er velferðarmál að dregið sé úr kostnaði við skólagöngu barna eins og unnt er og vel sé hlúð að börnum og fjölskyldum þeirra.Menntaráð áréttar bókun skólanefndar á fundi dags. 3. október 2016 varðandi lækkun ritfangakostnaðar og mælir með að bæjarstjórn samþykki tillögu þess efnis að grunnskólarnir fari í aðgerðir við að lækka ritfangakostnað. Í þeim tilgangi verði hvatt til þess að grunnskólarnir skipuleggi m.a. sameiginleg innkaup í samstarfi við foreldra. Miðað verði við að kostnaður vegna hvers nemanda verði ekki hærri en 4000 kr. á næsta skólaári 2017 -2018.
Nú hefur að tilhlutan Barnaheilla efnt til undirskrifta sem skora á sveitarfélög að taka þennan ritfangakostnað á sig. Á heimasíðu Barnaheilla (http://www.barnaheill.is/Frettir/Frett/fognumfjoldasveitarfelagasembjodaokeypisnamsgogn/ ) segir:
Í vor var mennta- og menningarmálaráðherra afhentur undirskriftalisti með á sjötta þúsund undirskriftum þar sem skorað var á yfirvöld að breyta grunnskólalögum og afnema gjaldtöku fyrir námsgögn. Nú hafa 17 sveitarfélög stigið skrefið til fulls og ákveðið að námsgögn verði ókeypis. Þetta eru sveitarfélögin Akranes, Blönduós, Borgarbyggð, Fjarðarbyggð, Garður, Grundarfjörður, Hafnarfjörður, Hornafjörður, Hveragerði, Ísafjörður, Mosfellsbær, Mýrdalshreppur, Reykjanesbær, Sandgerði, Snæfellsbær, Súðavíkurhreppur og Svalbarðsstrandahreppur.
Það er skylda næst stærsta sveitarfélagi landsins að taka að fullu þátt í þessari jöfnun.
Núna.