Jóhann Ísberg býður sig fram í 2-4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi þann 8. febrúar næst komandi. Áherslumál hans eru skipulagsmál og öflug uppbygging Kópavogs á komandi árum.
„Það þarf að haga sérstaklega að húsnæði sem hentar ungu fólki og bregðast við neyðarástandi í félagslega húsnæðiskerfinu. Einnig þarf að taka á málefnum eldri borgara af festu. Verkefni í skólamálum eru ærin þar sem þörf er á aukinni samvinnu og meira sjálfræði skólastjórnenda. Tryggja þarf betur jafnræði íþróttafélaga og efla æskulýðs- og íþróttastarf. Loks má nefna eflingu menningar, fegrun bæjarins og bæjarbrag sem sæmir miðju höfuðborgarsvæðisins,“ segir Jóhann í yfirlýsingu.
Jóhann hefur verið varabæjarfulltrúi á síðasta kjörtímabili og setið í skipulagsnefnd Kópavogs. Jóhann var formaður Sjálfstæðisfélags Kópavogs 2005-2011, í stjórn fulltrúaráðs síðan 2006, hefur setið í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins síðan 2011 auk margra annarra trúnaðarstarfa.
Jóhann hefur margsháttar starfsreynslu, hóf atvinnurekstur 18 ára samhliða mennta- og háskólanámi og hefur starfað við ýmislegt, allt frá sjómennsku að framhaldsskólakennslu. Síðastliðna tvo áratugi hefur hann starfað sjálfstætt að ferðamálum, ljósmyndun, útgáfu og netkerfum fyrir ljósmyndasöfn. Eftir hann liggja nokkrar ljósmynda- og tónlistarbækur auk aðkomu að verkum annarra. Jóhann á mjög stórt, ítarlegt ljósmyndasafn alls staðar af Íslandi sem hann hefur tekið á undanförnum áratugum.