Jólakveðja frá bæjarstjóra


Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.

Kæru Kópavogsbúar.

Árið 2017 var gott ár í Kópavogi. Bæjarfélagið stendur vel, hér hefur verið unnið hörðum höndum við að greiða niður skuldir, en á sama tíma höfum við hlúð vel að uppbyggingu í margvíslegum málaflokkum. Verkefnin eru fjölbreytt hjá svo stóru sveitarfélagi sem Kópavogur er og margt sem við erum stolt af hjá bænum.

Við leitumst líka við að horfa fram veginn. Hugsum verkefnin til lengri tíma og höfum gætt að því að hafa reksturinn í góðu horfi. Góður og skynsamlegur rekstur er undirstaða þess að við getum bryddað upp á nýjungum sem koma fjölbreyttum hópum bæjarbúa til góða, um leið og við sýnum stórhug í uppbygging og styrkingu innviða.

Nýsamþykkt fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 er gott dæmi um það hvernig við vinnum í bænum. Í henni er gert ráð fyrir stórum verkefnum, á borð við nýjum Kársnesskóla undir 1.-4. bekk, húsnæði fyrir Skólahljómsveit Kópavogs og íþrótta- og fimleikahúsi við Vatnsendaskóla. Eins og undanfarin ár eru engin ný lán til framkvæmda, þær eru allar greiddar af eigin fé bæjarins. Við erum á þeim stað að geta framkvæmt um leið og við greiðum niður skuldir og lækkum skatta á bæjarbúa.

Þess má geta að unnið verður að endurnýjun gervigrasvalla í bænum og þjónustuaðstaða sundlauganna verður endurnýjuð.

Við höfum einnig nýtt svigrúm sem rekstrarafgangur gefur okkur til að þjónusta íbúa. Á næsta ári verða námsgögn í Kópavogi án endurgjalds fyrir foreldra. Frístundastyrkur hækkar úr 40.000 kr. í 50.000 kr. Þá lækkar kostnaður á mat til eldri borgara um 20%. Álagningarhlutfall fasteigna lækkar á almenning en síðan verður afsláttur af þeim til eldri borgara hækkaður umtalsvert. Þá hækkum við laun ófaglærða í leikskólum til ófaglærðra sem vonandi skilar sér í því að starfsfólki þeirra fjölgar.

Við höldum áfram að efla íbúalýðræði í bænum og ætlum að setja 200 milljónir í íbúalýðræðisverkefnið Okkar Kópavogur á næsta ári. Aukið íbúasamráð er raunar eitt af einkennum þessa árs sem er að líða eins og undanfarinna ára.

Við höfum kallað íbúa til skrafs og ráðagerða oft á árinu og undanfarin ár. Við höfum meðal annars haldið íbúafundi í tengslum við Okkar Kópavog. Þá hafa íbúar verið boðaðir á fundi vegna samgöngustefnu sem nú er í mótun. Öldungaráð tók til starfa sem verður spennandi að vinna með. Samtal við íbúa er mjög mikilvægt og við munum halda áfram á þessari braut.

Af mörgu er að taka þegar litið er yfir árið sem er að líða. Uppbygging á Kársnesi, Glaðheimum, 201 Smára hélt áfram og framkvæmdir hófust í Auðbrekku. Við lukum við framkvæmd verkefna sem íbúar völdu árið 2016 í kosningum í Okkar Kópavogur. Ný leiksvæði og endurbætt útivistarsvæði hafa orðið til í tengslum við þetta verkefni sem er óhætt að fagna.

Bæjarskrifstofur Kópavogs fluttu á árinu og eru nú þrjú af fjórum sviðum stjórnsýslunnar komin í húsnæði að Digranesvegi 1. Hús bæjarins við Fannborg 2,4, og 6 verða seld og þar má gera ráð fyrir spennandi endurnýjun miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu og í hjarta eldri hluta Kópavogs. Endurnýjun bæjarskrifstofanna hefur tekist mjög vel til.

Þá höfum unnið markvisst í stefnumótun bæjarfélagsins. Lýðheilsustefna var samþykkt á árinu, en með innleiðingu hennar verður meiri áhersla á líðan og velferð íbúa bæjarins.

Senn koma jólin. Ég óska Kópavogsbúum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.