Jólakveðja frá bæjarstjóra

Fyrsta verkefnið úr verkefninu Okkar Kópavogur tekið í notkun María Maríusdóttir hugmyndasmiður, Theodóra S. Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs og Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri.
Fyrsta verkefnið úr verkefninu Okkar Kópavogur tekið í notkun. María Maríusdóttir hugmyndasmiður, Theodóra S. Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs og Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri.

Kæru Kópavogsbúar.

Nú þegar árið er að renna sitt skeið á enda er við hæfi að líta um öxl. Árið 2016 hefur verið gott ár hjá Kópavogsbæ. Verkefnin eru fjölmörg hjá svo stóru sveitarfélagi og margt sem kemur fram í málefnasamningi Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokksins sem birtist í verkefnum ársins.

Starf leik- og grunnskóla í bænum er til mikillar fyrirmyndar, þar ríkir metnaður og framsækni. Innleiðing spjaldtölva í starf grunnskóla sem hélt áfram á árinu er dæmi um verkefni sem eftir er tekið alls staðar á landinu og börn í Kópavogi njóta góðs af. Þá er unnið markvisst að endurbótum leikskólalóða undir vinnuheitinu „skemmtilegri leikskólalóðir“ þar sem gerðar eru gagngerar endurbætur á þeim lóðum sem elstar eru.

Á þessu ári var ýtt úr vör lýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur. Í því kölluðum við eftir hugmyndum að verkefnum í bænum frá íbúum. Um 400 hugmyndir bárust og var kosið á milli 100 þeirra í íbúakosningum í haust. Þrjátíu og fimm hugmyndum verður hrint í framkvæmd og er þegar lokið við nokkrar þeirra. Það var mjög ánægjulegt að sjá þann mikla áhuga sem bæjarbúar sýndu þessu verkefni og endurbótum í bænum um leið.

Kópavogsbúar eru nú ríflega 35 þúsund talsins. Fjölgunin er hröð enda bærinn miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu og hér er alla þjónustu að finna. Mikilvæg samgöngubót varð í bæjarfélaginu í haust þegar Arnarnesvegur milli Reykjanesbrautar og Fífuhvammsvegar opnaði.

Uppbyggingaráform á Kársnesi hafa vakið mikla athygli en vestast á nesinu stendur til að reisa blandaða byggð íbúðar- og atvinnuhúsnæðis í tengslum við byggingu brúar yfir Fossvog. Meðal annarra þéttingarsvæða má nefna Glaðheimar þar sem framkvæmdir eru hafnar og svæðið sunnan Smáralindar þar hefjast framkvæmdir innan tíðar.

Kópavogsbær leggur áherslu á að umgjörð þeirra sem í bænum búa og starfa sé góð. Lögð er áhersla á góða þjónustu í okkar stofnunum og á góðan rekstur bæjarfélagsins. Ársreikningar og fjárhagsáætlanir undanfarinna ára endurspegla þetta, vel gengur að greiða niður skuldir þó að verið sé að byggja upp um leið.

Nýmæli er að íbúar geta rýnt nákvæmlega í hvað peningum bæjarfélagsins er varið þar sem bókhald bæjarins var opnað í gegnum heimasíðuna; Kopavogur.is nú í haust. Þar má skoða öll viðskipti bæjarins niður á einstaka lánadrottna. Hér tók bæjarfélagið forystu á meðal opinberra aðila á landinu. Reykjavík fylgdi í kjölfarið og búast má við að fleiri opinberir aðilar fari þessa leið sem er lykilatriði í gagnsærri stjórnsýslu.

Loks má minna á að bæjarskrifstofur Kópavogs flytja á næsta ári úr Fannborg á Digranesveg 1. Hluti flytur þegar í janúar en aðrir síðar á árinu. Við sem störfum á bæjarskrifstofunum hlökkum til að taka á móti bæjarbúum á nýjum stað.

Gleðilega hátíð.

Umræðan

Fleiri fréttir

Össur Geirsson er heiðurslistamaður Kópavogs

Össur Geirsson er heiðurslistamaður Kópavogs 2024 og var valið kynnt við hátíðlega viðhöfn í Tónhæð, húsnæði Skólahljómsveitar Kópavogs.  Elísabet Berglind Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Kópavogs og formaður lista- og menningarráðs, afhenti

Brugðist við vopnaburði barna og ungmenna

Flýta á innleiðingu forvarnarverkefnis í KópavogiTala opinskátt um ofbeldi í öllum grunnskólum, frístund og félagsmiðstöðvum barna Menntaráð Kópavogs fjallaði um viðbrögð og forvarnir vegna ofbeldis og vopnaburðar barna og ungmenna

Heitar umræður um merki Pírata

Á aðalfundi Pírata í Kópavogi um liðna helgi var ný stjórn félagsins kjörin. Fundurinn var haldinn samhliða aðalfundum Pírata í Reykjavík, Ungra Pírata og Pírata í Suðvesturkjördæmi líkt og í

Gatnaframkvæmdir hafnar í Vatnsendahvarfi

Framkvæmdir við jarðvinnu og lagnir í Vatnsendahvarfi eru hafnar. Til að halda upp á áfangann tók bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir fyrstu skóflustungu að götunni Hæðarhvarfi. Árni Geir Eyþórsson, framkvæmdastjóri Jarðvals

Gamlar fréttir úr sarpinum

kraftajotnar
Birkir
Okkar Kópavogur
skyndihjalp
Arnþór Sigurðsson
Gísli Baldvinsson
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir
Vatnsendahvarf14411
Jói á hjólinu