Menningarhúsin í Kópavogi iða af lífi á aðventunni og eru ókeypis jólalistasmiðjur og tónleikar í Bókasafni Kópavogs og Gerðarsafni, listasafni Kópavogs.
Hin árlega jólalistasmiðja fer fram í Bókasafni Kópavogs, laugardaginn 12. Desember, frá kl. 13 til 16:30 Í Kórnum í fyrstu hæð safnsins og á hverjum miðvikudegi spila nemendur Tónlistarskóla Kópavogs jólalög á annarri hæð bókasasafnsins kl. 16:30.
Alla aðventuna er jólakortasmiðja í Gerðarsafni á fyrstu hæð listasafnsins þar sem gestir og gangandi geta búið til sín eigin jólakort. Uppbókað er í námskeið Gerðarsafns í teikningu og bókagerð laugardaginn 12. desember.
Í Gerðarsafni hefur verið opnaður veitingastaðurinn Garðskálinn en opnunartími er frá kl. 11 til 17 alla daga nema mánudaga. Þá er safnið lokað.
Í Náttúrufræðistofu Kópavogs sem er í sama húsnæði og bókasafnið hafa dýrin klæðst í sitt fínasta púss og í Salnum eru fjölmargir jólatónleikar á aðventunni en nánari upplýsingar eru á vef Salarins, salurinn.is.