Á meðan jólatré ónefnds nágrannasveitarfélags fýkur og brotnar í örlitlu roki haggast ekki jólatré okkar Kópavogsbúa á Hálsatorgi. Það á ættir sínar að rekja til Svíþjóðar og er alvant skítaveðri. Það er líka vandlega fest niður af starfsmönnum bæjarins sem lagt hafa á sig töluverða fyrirhöfn við að festa niður jólaskraut og jólatré í Kópavogi að undanförnu. Og ekki vanþörf á því enn er spáð ömurlegu veðri, nú frá Grænlandshafi. Þaðan kemur kröpp lægð í nótt. Veðurstofan spáir hvassviðri af suðaustri og snjókomu sunnan og vestanlands í fyrramálið. Eftir hádegi á morgun spá þeir 18-23 m/s sunnan og vestanlands með talsverðri snjókomu.
En stuðið er ekki alveg búið því annað kvöld á hann að snúast í suðvestan 8-15 m/s með éljagangi. Gert er ráð fyrir mjög slæmu ferðaveðri í Kópavoginum á morgun eins og víðast hvar um sunnan- og vestanvert landið.
Það er því rétt að negla niður jólaskraut og athuga aftur hvort jólatréð á Hálsatorgi sé ekki örugglega ennþá á sínum stað.