Umhverfisviðurkenningar umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogsbæjar voru afhentar við hátíðlega athöfn í Salnum nýverið. Að loknu ávarpi Ármanns Kr. Ólafssonar bæjarstjóra kynnti Hjördís Ýr Johnson formaður umhverfis- og samgöngunefndar hverjir hefðu hlotið viðurkenningar nefndarinnar að þessu sinni. Eins og venja er voru veittar viðurkenningar í nokkrum flokkum. Þá voru afhent fróðleiksskilti um Elliðavatn.
Að lokinni afhendingu viðurkenninga í Salnum var haldið í vettvangsferð á slóðir verðlaunahafa þar sem hús og lóðir voru skoðaðar. Einnig var stoppað við Elliðavatn þar sem fróðleiksskiltin voru sett upp.
Í Jórsölum afhjúpaði Margrét Friðriksdóttir, formaður bæjarstjórnar, viðurkenningaskjöld og flutti ávarp.
Í rökstuðningi fyrir valinu á Jórsölum segir:
Gatan einkennist af vel hirtum lóðum og stílhreinum og snyrtilegum húsum sem mynda fallega heildarmynd í götunni. Íbúar í Jórsölum eru vel að viðurkenningunni komnir fyrir að hafa hugað vel að umhverfi sínu, haldið húsum sínum og lóðum snyrtilegum og götunni fallegri í áranna rás. Íbúar götunnar eru öðrum íbúum Kópavogs hvatning og fyrirmynd.
Bæjarstjóri og formaður umhverfis- og samgöngunefndar gróðursettu tré, íbúum götunnar til heiðurs.
Þess má geta að umhverfisviðurkenningar hafa verið veittar í Kópavogi frá árinu 1964 eða í 50 ár.
Handhafar umhverfisviðurkenninga Kópavogs árið 2014 eru sem hér segir:
Fyrir endurgerð húsnæðis fengu Daði Hreinsson og Anna Þórisdóttir viðurkenningu fyrir endurgerð á Kópavogsbraut 76.
Viðurkenningu fyrir frágang húss og lóðar á nýbyggingarsvæði fékk byggingarfélag Gylfa og Gunnars en viðurkenningin var veitt fyrir Lund 86-92.
Viðurkenningu fyrir frágang húss og lóðar á nýbyggingarsvæði kom í hlut Silfurhúsa ehf. fyrir Þorrasali 9 til 11.
Viðurkenningu fyrir umhirðu húss og lóðar fengu þau Ármann Þ. Haraldsson og Ólöf Þ. Eyjólfsdóttir en þau búa við Gnitakór 15.
Veittar voru þrjár viðurkenningar fyrir hönnun.
Fyrir Aflakór 12 en þar var arkitekt Jón Hrafn Hlöðversson, eigendur eru Kristján Björgvinsson og Hrefna Gunnarsdóttir.
Fyrir Austurkór 78, arkitekt Valdimar Harðarson, eigendur Elías Guðmundsson og Alda Rós Ólafsdóttir
Fyrir Boðaþing 22 til 24, en þar hönnuðu TGH Arkitektar hús á tveimur lóðum fyrir aldraða.
Þá fengu Bjarni Sigurðsson og Helga Arnþórsdóttir viðurkenningu fyrir frágang húss og lóðar á nýbyggingarsvæði fyrir Álmakór 22.