Kærunefnd jafnréttismála: Kópavogsbær braut gegn lögum um jafnan rétt kynja við launaröðun

Á fundi bæjarráðs Kópavogs í dag, fimmtudaginn 6. nóvember, var lagður fram úrskurður kærunefndar jafnréttismála nr. 1/2014, þar sem nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að Kópavogsbær hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við launaröðun. Segir í tilkynningu frá bænum að málið varði launafulltrúa á menntasviði sem kærði bæinn vegna launaröðunnar.

Kærandi er kona og taldi hún að launamunur á henni og karlmanni sem gegndi sambærilegu starfi væri aðeins skýrður vegna kynferðis. Þessu mótmælti bærinn og vísaði til þess að karlmaðurinn er með háskólamenntun en konan ekki.

Forsaga málsins er sú að í kjarasamningi Kópavogsbæjar og Starfsmannafélags Kópavogs (SfK) er sérákvæði, svonefnd háskólabókun, sem heimilar að félagar í SfK taki laun miðað við kjarasamninga háskólamanna án þess að vera félagsmenn í þeim en greiði þess í stað félagsgjald sitt til SfK. Um þetta sérákvæði er nú deilt í kjaraviðræðum bæjarins og félagsins.

Bærinn féllst á það sjónarmið SfK að umræddur karlmaður væri með háskólamenntun sem nýttist í starfi og ætti að fá laun samkvæmt því. Starfsmaðurinn sem kærði bæinn sætti sig ekki við launamun og taldi í kæru sinni að eingöngu mætti skýra launamun þeirra á milli með vísan til kynferðis.

Kærunefndin féllst á rök kæranda og telur að ekki hafi tekist að skýra launamun með vísan til háskólamenntunar karlmannsins, enda ekki sýnt fram á að menntun hans nýttist í viðkomandi starfi.

Því beri Kópavogsbæ að leiðrétta laun konunnar og hækka til samræmis við kjarasamning háskólamenntaðra starfsmanna, þótt viðkomandi hafi ekki háskólamenntun. Meginsjónarmið Kópavogsbæjar voru þau að rétt væri að taka tillit til menntunar viðkomandi karlmanns og þar sem hann væri með háskólamenntun en konan ekki væri launamunur réttlætanlegur. Eins og áður segir féllst kærunefndin ekki á sjónarmið bæjarins.

Við þetta má bæta að það er skýr stefna Kópavogsbæjar að vinna gegn kynbundnum launamun. Kynbundinn launamunur á heildarlaunum hjá Kópavogsbæ var 3,25% körlum í vil í könnun sem kynnt var í febrúar. Könnunin sýndi einnig að launamunur kynja var minnstur í Kópavogi þegar stærstu sveitarfélög landsins voru borin saman. Unnið er að því með markvissum hætti að útrýma launamun kynjanna alveg hjá bænum.

Bæjarráð vísaði úrskurði kærunefndar jafnréttismála til umsagnar bæjarlögmanns og starfsmannastjóra. Kópavogsbær hefur óskað eftir frestun réttaráhrifa á meðan metið er hvort skjóta eigi málinu til dómstóla til að fá úrskurðinum hnekkt.

Úrskurð kærunefndarinnar má finna á vef nefndarinnar www.urskurdir.is

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Kópavogsblaðið komið út

Stolt Kópavogs eru á forsíðu Kópavogsblaðsins að þessu sinni. Karlalið Breiðabliks er komið í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu eftir að hafa slegið út Struga frá Norður-Makedóníu. Blikar leika sex leiki í

Mygla hjá velferðarsviði

Velferðarsvið Kópavogsbæjar er ekki lengur með starfsemi í Fannborg 6. Slæm loftgæði eru í húsinu sem haft hefur áhrif á starfsfólk hússins og sýna nýjustu mælingar há gildi myglugróar. Því

Stuð á Hamraborg Festival

Hamraborg Festival fór fram í lok ágúst í Hamraborg og í menningarhúsunum í Kópavogi, en Hamraborg Festival er þverfagleg hátíð með sérstakri áherslu á myndlist, staðbundin verk, gjörningalist og samfélagslega

Króníkan opnar í Gerðarsafni

Veitingastaðurinn Króníkan opnaði í sumar í Gerðarsafni. Samningur við nýjan rekstraraðila var undirritaður 11.maí, á afmælisdegi Kópavogsbæjar. Bragi Skaftason og Sigrún Skaftadóttir, systkini úr Vesturbæ Kópavogs, hafa tekið reksturinn að sér