Ármann snýst gegn Gunnari
Líf Gunnars Birgissonar hefur ekki verið neinn dans á rósum. Hann ólst upp við lítil efni og var hálfgerður einstæðingur; átti fjölda hálfsystkina og uppeldissystkina en var meira og minna á eigin vegum frá unglingsaldri. Fljótlega kom í ljós að Gunnar er hamhleypa til verka, hann braust til mennta og þegar hann fann fjölina sína sem verkfræðingur og síðar stjórnmálamaður var fátt sem gat stöðvað hann. Orri Páll Ormarsson hefur skráð sögu Gunnars. Hér á eftir fer stuttur kafli úr bókinni.
Ég íhugaði alvarlega að láta staðar numið árið 2010 en menn komu unnvörpum til mín og skoruðu á mig að halda áfram. Það varð til þess að ég gaf kost á mér í prófkjörinu fyrir bæjarstjórnarkosningarnar. Gunnsteinn vissi að hann ætti ekki möguleika gegn mér og þess vegna var Ármanni teflt fram í staðinn.
Mér var ljóst að það yrði á brattann að sækja vegna þess sem á undan var gengið en opnaði bara mína kosningaskrifstofu og hugðist láta skeika að sköpuðu. Ég vissi það ekki þá en rétt eftir áramótin hafði verið haldinn fundur í gömlu ungliðahreyfingunni í Sjálfstæðisflokknum í Turninum í Kópavogi, þar sem foringinn þeirra, Guðlaugur Þór Þórðarson, lagði á ráðin um það hvernig unnið skyldi fyrir sinn gamla vopnabróður, Ármann Kr. Ólafsson, gegn Gunnari Birgissyni. Áður hafði ég hjálpað Guðlaugi Þór heilmikið þegar hann sóttist eftir formennsku í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Hann var fljótur að gleyma því, sá fugl. Þessi sama klíka hafði skilað Gulla góðum árangri í prófkjörum í borginni og síðar vegna alþingiskosninga. Ég hafði stutt Björn Bjarnason fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2003 og Gulli, sem bað mig aldrei um stuðning, brjálaðist og lofaði að ná sér niður á mér síðar.
Nú var sá tími upp runninn.
Það var merkilegt að fylgjast með því hvernig Gulli rak sína kosningabaráttu, boðið var upp á frían morgunverð og mat í hádeginu og stundum á kvöldin. Allt í boði Bónuss. Þeir feðgar áttu hann skuldlausan. Þennan hvítþvegna engil.
Ómar Stefánsson var snöggur að hoppa á vagninn hjá Ármanni. Eins Guðríður Arnardóttir og meira að segja Vinstri grænir. Það var því við ramman reip að draga. Þeir unnu líka HK á sitt band; íþróttafélagið sem var í litlu herbergi þegar ég kom inn í Kópavog en var nú komið með nýtt íþróttahús í Digranesi og fína aðstöðu í Fagralundi. Ég vildi alltaf skipta Kórnum á milli HK og Breiðabliks, það væri sanngjarnast, en Ármann lofaði HK húsinu og nú hangir merki þess þar uppi. Ég hef miklar efasemdir um að íþróttafélög eigi sjálf að reka íþróttahús, þeirra kröftum er mun betur varið í að stuðla að uppbyggingu unglingastarfs. Íþróttastarf snýst um miklu meira en bara steinsteypu og fermetra. Allt var þetta fólk sem hafði stutt mig áður en snerist nú gegn mér.
Þessi Gulla-klíka, ég kalla þá gangsterana, er ekki vönd að virðingu sinni og eirir engu. Lygasögum var ausið upp, eins og þeirra er siður, og ekkert til sparað við að koma mér á kné. Samt sem áður var ég ekki svo langt frá mínu fylgi í fyrri prófkjörum, það var yfirleitt á bilinu 1.200 til 1.500 atkvæði. Hingað til hafði það alltaf dugað í fyrsta sætið en nú fékk Ármann skyndilega 1.600 atkvæði. Skýringin var sú að metþátttaka var í prófkjörinu, fór úr 2.500 manns í um það bil 4.300.
Ég lenti í þriðja sæti í prófkjörinu, Hildur Dungal í öðru en hún hvarf fljótt á braut. Stuðningsmenn Ármanns komu strax með tillögu um að ég færi út af listanum fyrir kosningarnar en ég var ekki tilbúinn að verða við þeim óskum. Ég fann líka fyrir miklum stuðningi og margir hvöttu mig til að fara í sérframboð en það vildi ég ekki gera flokknum. Stuðningsmenn mínir gerðu könnun og samkvæmt henni hefði ég fengið tvo til þrjá menn, jafnmarga og Sjálfstæðisflokkurinn.
Ármann sá um að skipuleggja kosningabaráttuna og ég hafði hægt um mig. Allt í einu lögðust menn í alls kyns greiningar en maður vinnur ekki kosningar á þeim, jafnvel þótt þær geti gefið vísbendingu um stöðuna. Það var erfitt að nálgast Ármann; hann vildi helst ekkert við mig tala. Blokkaði mig bara út. Og svo sem ekkert við því að gera. Illa gekk að safna peningum fyrir kosningarnar enda hafði það verk yfirleitt verið á minni könnu.
Við biðum afhroð í kosningunum, fórum niður í 28% úr rúmlega 44%. Héngum samt á fjórum mönnum. Ómar marði það að komast inn fyrir Framsókn á innan við 7%. Meirihlutinn var fallinn og Guðríður sá sér leik á borði og myndaði meirihluta með Vinstri grænum, Næstbesta flokknum og Kópavogslistanum. Lokamarkmiði hennar var náð.
Það var engin skemmtun að vera í minnihluta. Ármann átti margt ólært, eins og kom í ljós við gerð fjárhagsáætlunar, og vildi ekki leita í reynslubankann til mín. Þó var ég klár með fjárhagsáætlun til að leggja fram af okkar hálfu. Það var ekkert samstarf milli okkar lengur, algjör trúnaðarbrestur og vinslit. Það mun ég aldrei fyrirgefa. Þankagangurinn hjá Ármanni var með þeim hætti.
Langtímamarkmið þessarar klíku, gangsteranna, er að taka yfir Sjálfstæðisflokkinn. Bakslag kom í feril Gulla eftir hrunið og fyrir alþingiskosningarnar 2016 treysti hann sér ekki til þess að fara gegn Ólöfu heitinni Nordal í prófkjörinu í Reykjavík. Bauð sig fram í annað sætið en lét samt þriðjung stuðningsmanna sinna setja sig í fyrsta sæti; til að minna á sig og sýna mátt sinn og megin. Það er ekki til í hans hugmyndafræði að styðja oddvitann slétt og fellt. Þetta eru miskunnarlausir menn og það yrði skelfilegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn næðu þeir að taka hann yfir. Koma þarf í veg fyrir það með öllum tiltækum ráðum.
Vinnubrögðin minna einna helst á Óskarsverðlaunamyndina frægu, Guðföðurinn. Gulli er Don Corleone og hinir verða að sverja honum hollustu sína. En það vill svo til að það eru ekki allir sem þegja um þetta inni í þessari klíku; þess vegna veit maður þetta. Hjá þessum mönnum snúast stjórnmál um völd og aftur völd. Málefni eru aukaatriði.
Og Gulli sér um sína. Þegar hann var heilbrigðisráðherra réð hann vini sína og já-bræður í alls kyns verkefni og þeir fitnuðu eins og púkinn á fjósbitanum. Nú er hann aftur orðinn ráðherra og mönnum hollara að fylgjast vel með honum.
Framkoma þessara manna í minn garð var fyrir neðan allar hellur og dag einn mun ég kvitta fyrir það. Þeir eru í Sjálfstæðisflokknum og það er ég líka og samskiptum okkar er hvergi nærri lokið.
Það er svo sem gömul saga og ný að það safnist fólk með alls konar skrýtið eðli inn í stjórnmálastarf og það er öllum mönnum hollt að lesa Furstann eftir Machiavelli. Þá vita menn hverju þeir eiga von á í pólitík.
Sjálfur er ég meiri hugsjónamaður. Hef alltaf hugsað meira um verkefnin sem þarf að leysa en bakið á sjálfum mér. Það hefur aldrei verið minn stíll að auglýsa og hampa sjálfum mér og segja má að það hafi komið mér í koll í Kópavogi. Ef til vill var ég ekki nógu duglegur að láta fólk vita hvað ég væri að gera. Ég er bara ekki þannig gerður.