Ég hef aldrei verið góð í stærðfræði, það er líka bara allt í lagi. Ég var góð í íslensku. Ég man þegar ég var lítil og látin reikna upp dæmi á töflunni. Mikið fannst mér það skelfileg tilhugsun og eitt sinn varð ég stjörnuvitlaus, stóð bara stjörf upp á töflu í langan tíma og hugsaði að nú væri ég búin að rústa lífinu mínu. Ég veit betur í dag. Ég kann ekki algebru, ég veit ekki hvernig reikna á út byggingarformúlur. En ég kann plús og mínus. Í dag langar mig að deila með ykkur Kalóríustærðfræðinni minni. Því það kann ég. Því það er bara plús og mínus. En mig langar að taka það skýrt fram að ég mæli ekki með að telja kalóríur (hitaeiningar , kcal) ofan í sig daglega eða spá alltof mikið í þær, því þá getur lífið farið að snúast um kalóríur, sem er kannski ekki mjög áhugavert efni.
Ég var einu sinni feit. Svona eins og Jón Gnarr var einu sinni nörd. Þegar ég var þybbin, það er betra orð, þá borðaði ég svona 2500 – 3000 kcal á dag. Það er ekkert svo slæmt, ef ég væri karlmaður eða sunddrottning sem æfði mikið alla daga.
Takið nú eftir: Til þess að losna við 1 kg af umfram fitu þarftu að borða 7000 minni kalóríur. (ekki á dag!) Ok. Þetta er ekki svo flókið eða svo erfitt. Engin Geimvísindi. Setjum nú upp reikningsdæmi:
Sigga borðaði 2500 kcal á dag. Einn daginn ákvað hún að taka sig á og borða bara 2000 kcal á dag. Hún nennti ekki að hreyfa sig með því. Hvað græddi hún margar kaló þann dag?
500 ekki satt? Vá, fimmhundruð kall á dag. Hvað þarf hún að gera þetta í marga daga til að ná 7000 kallinum…? Svarið er 14 daga. Rétt svar hjá ykkur. Það tók hana 14 daga, samkvæmt lífeðlisfræðinni að ná af sér kílói. Eftir 28 daga var hún því búin að missa 2 kíló.
Þetta er bara áreiðanleg lífeðlisfræðileg kenning.
Þannig ½ kíló á viku er því eðlilegasta framvindan. Þau kíló eru líka ekki svo auðveld á aftur ef maður heldur sínu striki. Náttúrulegasta leiðin. Líkaminn veit hvað hann syngur. Hlustið á hann.
2 kg í mánuði.
24 kg á ári.
Þessi sama Sigga og í reikningsdæminu hér að ofan, þurfti ekki að læra nein vísindi. Hún þurfti að læra ÞOLINMÆÐI og hlusta á mömmu sína þegar hún sagði að Góðir hlutir gerast HÆGT!
Munum að líkaminn okkar vill gera þetta á sínum hraða. Öðlumst þolinmæði og leyfum honum að gera þetta fyrir okkur.
Njótið dagsins í dag og reynum að sýna líkamanum okkar virðingu og þolinmæði! 🙂
Kærleikur,
Sigga
Heilbrigð heilsuráðgjöf:
https://www.facebook.com/family/Heilsur%C3%A1%C3%B0gj%C3%B6f/1