Eftir Jakob Líndal, formann Karlakórs Kópavogs
Það er nóg að gera hjá Karlakór Kópavogs þessa dagana. Kórinn hefur stækkað ört undanarin ár og telur nú ríflega 60 starfandi söngmenn. Það er átak að slípa saman hljóm í kór sem allt að þrefaldast í stærð á nokkrum árum. Að þeim sökum höfum við haldið nokkuð lágan prófíl þar til markmiðinu er náð en kórfélagar hafa einbeittan brotavilja og okkur er að takast það. Kópavogur er að eignast fullburða karlakór. Hvert starfsár hefst á æfingahelgi í Söngskóla Reykjavíkur þar sem raddir eru slípaðar saman undir handleiðslu valinkunnra kennara Söngskólans. Í haust nutum við leiðsagnar Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur, Bergþórs Pálssonar auk stjórnanda okkar Garðari Cortes. Í kjölfarið á því hafa félagar átt kost á að fá kennslu í tónfræði auk einkaleiðsagnar úr hópi kennara söngskólans.
Haustið fór að mestu í að æfa fyrir jólatónleika Kristjáns Jóhannssonar í Eldborgarsal Hörpu þann 7.desember síðastliðinn en þar sungum við ásamt Óperukórnum í Reykjavík kafla úr Aidu eftir Verdi. Tónleikarnir tókust mjög vel og þótti karlakórinn bara nokkuð góður. Þar að auki vorum við með aðventusöng í Gerðasafni í upphafi aðventunar þann 30. nóvember og svo í Aðventkirkjunni þann 13. desember. Að því loknu hófst árleg Jólatrjáasala Karlakórsins við Sorpu á Dalvegi. Þar selur Karlakórinn íslensk jólatré. Salan er ein aðal fjármögnunarleið kórsins og hverju tréi fylgir miði á vortónleika kórsins. Salan tókst ágætlega og það er að verða æ vinsælla að fólk velji íslenska Stafafuru fyrir jólatré og munum við kappkosta við að eiga gott úrval af þeim komandi jól.
Nú erum við að undirbúa vortónleika kórsins sem eru venjulega í Salnum í kringum fyrstu helgina í maí. Það er þá helgin fyrir afmæli Kópavogs þann 11.maí og Kópavogsdagana en þá höfum við sungið vítt og breitt um bæinn. Dagskráin fyrir vortónleikanna er að mótast og verður að vanda vönduð.
Strax í haust, þriðja og fjórða september munum við syngja ásamt Óperukórnum í Reykjavík stórtónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Kristins Sigmundssonar í Eldborg undir stjórn Rico Saccani. Þetta verður metnaðarfullur flutningur og til að verða klárir fyrir flutninginn munum við hefja æfingar í vor og hita svo upp í haust.
Framtíð karlakórsins er björt og við hlökkum til að sjá hvað rekur á fjörur okkar á komandi árum.
Kórinn æfir reglulega, einu sinni í viku, á þriðjudögum í samkomusal Álfhólsskóla Hjalla kl 19.30-22.00. Vegna tónleikanna í haust munum við bæta við einhverjum æfingum á fimmtudögum líka.
Stjórnandi kórsins er Garðar Cortes. Formaður kórsins er Jakob E. Líndal sem er hægt að ná í í síma 664-8801 eða senda tölvupóst á: Jakob@alark.is. Heimasíða kórsins er www.karlakor.com