Í kvöld er komið að heimaleik á ný hjá HK í 2. deild karla en sextánda umferðin í deildinni er öll spiluð í kvöld. HK tekur á móti Dalvík/Reyni á Kópavogsvellinum og leikurinn hefst klukkan 19.15.
HK er í öðru sæti deildarinnar eftir 15 umferðir með 30 stig, einu minna en topplið KV. Dalvík/Reynir er í sjöunda sætinu með 22 stig og á því enn möguleika á að blanda sér í toppbaráttuna.
Norðanmenn hafa verið algjörlega óútreiknanlegir í sumar og þeir hafa náð betri úrslitum á útivöllum en á heimavelli sínum á Dalvík. Þeir hafa unnið góða útisigra gegn ÍR, Reyni í Sandgerði, Njarðvík og Sindra, en m.a. tapað illa heima fyrir bæði Reyni og Njarðvík. Þá eru þeir annað tveggja liða sem hefur sigrað KV á þessu tímabili. Í síðasta leik gerði Dalvík/Reynir 0:0 jafntefli við Gróttu á heimavelli og vann þar á undan Sindra, 2:1, á Hornafirði.
HK vann fyrri leik liðanna á Dalvík, 6:2, en þar missu heimamenn markvörð sinn af velli með rautt spjald snemma leiks, sem hafði sitt að segja.
Tryggvi Guðmundsson er leikfær með HK í kvöld, enda þótt hann fengið slæmt högg í leiknum við Reyni á fimmtudaginn og skurð fyrir ofan augað þar sem saumuð voru nokkur spor. Atli Valsson er hinsvegar ekki með að þessu sinni og þá eru þrír úr hópnum úr leik vegna veikinda. Birgir Ólafur Helgason kemur inní hópinn á ný en Aron Lloyd Green, sem var í banni í síðasta leik, getur ekki spilað vegna meiðsla.
Þá er Finnbogi Llorens byrjaður að æfa á ný eftir að hafa meiðst snemma á tímabilinu og gæti komið inní hópinn fljótlega. Brynjar Víðisson hefur hinsvegar lítið getað æft ennþá eftir að hafa brotið hnéskel skömmu fyrir Íslandsmótið og ólíklegt er úr þessu að hann nái að spila í ár.