„Kennarar eru meira svekktir en reiðir,“ segir trúnaðarmaður kennara í MK.

 

 

Menntaskólinn í Kópavogi.
Menntaskólinn í Kópavogi.

Menntaskólinn í Kópavogi er einn fjölmennasti framhaldsskóli landsins en þar starfa rúmlega eitt hundrað kennarar og ellefu hundruð nemendur. Líkt og aðrir kennarar í framhaldsskólum landsins lögðu kennarar í MK tímabundið niður störf í gær til að funda um kjaramál sín og mótmæla því sem þeir kalla skilningsleysi stjórnvalda. Þar var þessi ályktun var samþykkt:

Kennarafélag Menntaskólans í Kópavogi (KMK) skorar á stjórnvöld að semja við framhaldsskólakennara strax svo eyða megi óvissu og óöryggi um skólastarf í landinu. KMK minnir á að undanfarin ár hefur launaþróun framhaldsskólakennara ekki fylgt launaþróun viðmiðunarhópa hjá ríkinu. Samkvæmt  skýrslu aðila á vinnumarkaði frá 2013 hafa laun í framhaldsskólum hækkað minna en hjá öllum öðrum frá árinu 2006 til 2013. Brýnt er að leiðrétta þennan launamun á næsta samningstímabili.

Vinnuálag á kennara hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár, hópar hafa stækkað, í framhaldsskóla fyrir alla eru fleiri nemendur sem glíma við námsörðugleika og sértæk vandamál. Samfara endurteknum niðurskurði í framhaldsskólum undanfarin ár hafa verið gerðar auknar kröfur um fjölbreyttari kennsluaðferðir, aukið námsframboð og þjónustu við nemendur og forráðamenn þeirra.

KMK telur að ekki verði lengur unað við óbreytt ástand. Nú er komið að því að kjör kennara verði leiðrétt. Slök starfskjör ógna nýliðun í stéttinni og grafa undan gæðum skólastarfs. KMK minnir stjórnvöld á mikilvægi menntunar og skólastarfs og að ekki dugi loforð um að efla menntakerfið  heldur sé nú komið að því að sýna viljann í verki. Starf framhaldsskólakennara er mikilvægur þáttur í menntakerfi landsins sem verður að sýna virðingu. Það er ekki gert með því að hunsa sanngjarnar kröfur um leiðréttingu á kjörum kennara.

Soffía Ófeigsdóttir, er trúnaðarmaður kennara við MK. Hún segir kennara vera meira svekkta en reiða:

Soffía Ófeigsdóttir, trúnaðarmaður kennara í MK.
Soffía Ófeigsdóttir, trúnaðarmaður kennara í MK.

„Tónninn í kennurum hér er þungur og er án efa svipaður og í öðrum skólum.  Mér finnst eins og kennarar séu meira svekktir en reiðir. Þeir eru orðnir þreyttir á langvarandi niðurskurði sem bæði hefur komið niður á skólastarfinu og aðbúnaði almennt.  Við höfum rætt það hér að stjórnmálamenn í  gegnum tíðina hafa löngum talað um gildi menntunar og mikilvægi þess að hafa öflugt skólastarf í landinu en svo virðast þau orð gleymast þegar kemur að fjárlagagerð.“ 

Um hvað var rætt á samstöðufundi kennara í MK?

„Á samstöðufundinum var rætt um það sem helst virðist vera áhugaleysi stjórnvalda á því að semja við kennara og menn voru einnig sammála um það að á næsta samningstímabili væri mikilvægt að ná fram leiðréttingu á því launabili sem hefur myndast á milli launa framhaldsskólakennara og  viðmiðunarhópa BHM hjá ríkinu.  Mismunur á meðaldagvinnulaunum í framhaldsskólum og hjá þeim er nú um 17%.“  

Um hvað snýst þessi deila um?

„Deilan snýst í raun um þessa leiðréttingu og að auki um það að bæta kjör kennara þannig að þeir fái það sem þeim ber miðað við menntun og ábyrgð. Kennarar hafa einnig áhyggjur af því hve lítil nýliðun er í stéttinni. Launakjör spila án efa mikið inn í það að ungt fólk virðist ekki hafa áhuga á kennarastarfinu.  Það er synd því kennarastarfið er mjög skemmtilegt og gefandi. En það er ekki metið að verðleikum í þessu þjóðfélagi. Það er hart að vel sérfræðimenntað fólk með jafnmikla ábyrgð og kennarar þurfi að fara hjá sér þegar það talar um launin sín. Samningar okkar eru lausir og við vitum ekkert hvað tekur við. Litlu hefur miðað í samningum fram að þessu og við vitum ekkert hvert framhaldið verður né til hvaða aðgerða verður gripið náist ekki samningar. Skólastarf í framhaldsskólum er viðkvæmt og þó flestir nemendur okkar séu að verða fullorðið fólk þá höfum við áhyggjur af því hvaða áhrif þessi óvissa með framhald skólastarfsins hefur á þá.“

Hvaða lausnir sjá kennarar í MK fyrir sér? 

„Kennarar í MK hafa enga lausn á takteinum aðra en þá að stjórnvöld taki við sér sem allra fyrst og semji við framhaldsskólakennara um raunverulegar kjarabætur,“ segir Soffía Ófeigsdóttir, trúnaðarmaður kennara við MK.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Þúsundir íbúða í nýjum lífsgæðakjarna í Kópavogi

Áform um uppbyggingu hjúkrunarrýma og íbúða á Gunnarshólma Loftmynd af svæðinu Bæjarráð Kópavogs hefur samþykkt að vísa áfram til samþykktar bæjarstjórnar drögum að viljayfirlýsingu við Aflvaka þróunarfélag um uppbyggingu 5.000

Kársnesskóla skipt í tvo skóla

Kársnesskóla verður skipt upp í tvo sjálfstæða skóla á skólaárinu 2024 til 2025 samkvæmt tillögu menntasviðs Kópavogsbæjar sem samþykkt hefur verið í bæjarstjórn Kópavogs. Lagt er til að skólanum verði

Jólatónleikar Samkórs Kópavogs

Samkór Kópavogs syngur inn aðventuna á sínum árlegu jólatónleikum sunnudaginn 3. desember n.k. Tónleikarnir verða í Digraneskirkju og hefjast kl. 17:00. Einsöngvari með kórnum að þessu sinni er tenórsöngvarinn Gunnar