Á Heilsuleikskólanum Urðarhól í Kópavogi syngja börnin oft á öðrum málum en íslensku. Birte Harksen, sem er þar fagstjóri í tónlist, hefur sérstaklega gaman af því að kynna hljóminn í öðrum tungumálum gegnum söng. Þannig vinnur hún með fjölmenningu og vekur áhuga barnanna á öðrum menningarheimum. Mörg dæmi um þetta má finna á vefsíðu hennar, bornogtonlist.net, sem er hugmyndabanki um tónlist í leikskólastarfi.
Hér er upphaf einnar færslunnar þar: „Bahay Kubo er filippseyskt lag um grænmetið sem vex í kringum lítinn bambuskofa. Á Urðarhóli starfar Thess frá Filippseyjum, og dóttir hennar var á deildinni hjá mér. Þess vegna langaði mig til að kenna börnunum lag þaðan. Thess benti mér á Bahay Kubo vegna þess að þar er alls konar grænmeti nefnt á nafn og þetta er þrátt fyrir allt heilsuleikskóli!“ Tilgangurinn að syngja lög á framandi tungumálum er að rjúfa menningarmúra í gegnum söng og tónlist, auka við næmni og skynjun fyrir öðrum og dýpka vináttu. Því að auðvitað er það best ef hið framandi tungumál er um leið móðurmál einhverra barnanna í leikskólanum. Hver vill ekki eiga vin sem kemur frá öðru landi? Í áranna rás hafa fleiri og tungumál bæst við, og nú eru lög á nær 20 mismunandi tungumálum á vefnum hennar Birte.
Byggir á eigin reynslu
Birte flutti sjálf til Íslands árið 2000 frá Danmörku. Hún er gift Íslendingi og er grunnskólakennari að mennt en hefur einnig leikskólakennararéttindi. Hugmyndina að verkefninu byggir hún á eigin reynslu sem innflytjandi hingað til lands, og á reynslu barna sinna sem einnig eru tvítyngd. Um síðustu áramót fékk hún viðurkenningu jafnréttis- og mannréttindaráðs Kópavogsbæjar en viðurkenningin er veitt til aðila sem hafa staðið sig vel á sviði jafnréttis og mannréttinda. Sérstaka athygli vakti um heim allan þegar Birte kenndi leikskólabörnum á Urðarhóli Dropalagið á arabísku af því tilefni að drengur frá Sýrlandi byrjaði í leikskólanum. Börnin lærðu lagið á rúmri viku og sungu fyrir drenginn þegar hann mætti í fyrsta skiptið honum til mikillar undrunar. „Ég vona að þegar þessi börn hitti arabískumælandi fólk í framtíðinni verði það fyrsta sem þau hugsa: „Hey, ég kann arabískt lag!“ – og að þetta hjálpi þeim að yfirvinna fordóma og mynda jákvæð og vinsamleg samskipti, “ segir Birte.
Ánægðir foreldrar
„Það sem er svo mikilvægt er að krakkarnir fái að vita um hvað lagið fjallar. Hvort sem það er á kínversku eða arabísku, þá er alltaf einhver saga sem verið er að segja sem börnin tengja við. Það hvetur þau til að læra lagið og gleður líka barnið, eða börnin, frá viðkomandi landi.“ Afar vel er látið af þessu verkefni og foreldrar erlendra barna við leikskólann hafa óspart látið ánægju sína í ljós.
„Stundum geta sumir leikskólakennarar verið feimnir eða hikandi að ræða við foreldra barna af erlendum uppruna, eða öfugt. Þá getur verið gott að brjóta ísinn með samræðu um til dæmis lag á viðkomandi tungumáli sem leikskólakennarinn hefur lært með börnunum eða biðja þá um ábendingu að lagi sem hægt væri að læra. Foreldrarnir upplifa að maður hefur áhuga á menningu þeirra og tungumáli, og það skiptir máli. Það léttir lundina, brýtur múra og fólk fer að tala saman á hversdagslegu mannamáli.“ Aðspurð um hvaða lög séu efst á vinsældalistum hennar og barnana er hún fljót til svars: „Öll lög frá Filippseyjum er auðvelt að syngja, því við eigum auðvelt með að bera það fram. En pólsk lög eru erfið fyrir okkur í framburði. Skemmtilegast og fyndnast finnst mér að kenna krökkunum dönsk lög, á mínu eigin móðurmáli, því íslenski hreimurinn er svo sterkur og gaman að kenna þeim réttan framburð.“