
Í Kópavogi eru níu grunnskólar sem bjóða upp á dægradvöl að loknum skóladegi. Haustið 2013 var gerð könnun á starfsemi frístundaheimila á Íslandi af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þar kom fram að 58% af 6-9 ára börnum á landinu voru skráð á frístundaheimili. Nýting frístundaheimila í Kópavogi var í 1. bekk 90%, 2. bekk 88%, 3. bekk 57% og í 4. bekk 5%, brottfall 4. bekkjar frá árinu 2009 var 25%. Góð nýting er hjá 6 og 7 ára börnum en brottfall 8 og 9 ára kallar á aldursviðeigandi og áhugamiðuð verkefni svo að þessi hópur sæki starfsemina.
Þörf er á stefnumótun fyrir landið allt hvað varðar samræmingu, opinberar reglur og viðmið. Löggjöf nágrannalanda byggist á því að markmið eru vel skilgreind þar sem taka skal tillit til þarfa allra barna. Reglur eru um húsnæði, öryggi, menntun starfsfólks á mismunandi stigum og í Svíþjóð er samþætt námskrá fyrir 6–12 ára.
Keppni í heppni
En hver er staðan í Kópavogi, er vilji til samþættingar? Erum við tilbúin til þess að taka þátt í faglegri þróun hérlendis, má breyta heiti starfseminnar? Er samstarfsvilji á frekari nýtingu húsnæðis skóla og tómstundafélaga? Sárlega ber á aðstöðuleysi starfsfólks og barna dægradvalar í Kópavogi og oft ekki margir fermetrar ætlaðir mikilvægu starfi. Æskilegt er að hafa miðlægan ramma um starfsemina svo að það sé ekki keppni í heppni í hvaða skólahverfi fólk býr hvað varðar gæði þjónustunnar.
Minnkum skutlið
Stuðla þarf að heildrænu dagskipulagi grunnskólabarna svo að tímalengd sé háð þroska og getu. Samþætting grunnskóla og frístundaheimila og tenging við íþrótta, æskulýðs- og tómstundastarf er nauðsynleg og þarf að gera enn betur svo að öll börn komist í sínar tómstundir. Þeir aðilar sem koma þar að þurfa að samræma tímatöflur og gera börnum kleift að komast í sína tómstund á frístundatíma þar sem að bæjarfélagið, íþrótta-og tómstundafélög og skólar gætu sameinast um tómstundavagna. Fyrirkomulagið er heilsu- og umhverfisvænt, mundi minnka streitu foreldra við skutl á vinnutíma og auka sjálfstæði barna.
Öll börn hafi verkefni við hæfi
Auka þarf fjölbreytileika í starfsemi frístundaheimila svo að öll börn finni verkefni við sitt hæfi. Ekki sækja öll börn í aðra frístundastarfsemi og verja tíma sínum í dægradvöl í allt að hálfum vinnudegi fullorðins. Samfylkingin vill lengja opnunartíma um minnst tvær vikur í byrjun og lok skólaársins, hafa sumarfrístundanámskeið sem valkost í tómstundastarfi bæjarins. Það styður á heildrænan hátt við þarfir barna og fjölskyldunnar og er í takt við skólafrí og atvinnulífið. Mikilvægt er að tryggja að börn með fatlanir eða sértækan stuðning geti tekið þátt í starfseminni en hérlendis hefur verið brotalöm á því. Frístundir eiga að efla líkamlega og sálfélagslega færni á mótunarárum í lífi barnsins, tækifæri til virkni, sköpunar og vinatengsla eiga að ráða ríkjum sem og hollusta og vellíðan á öruggum stað.
Samfylkingin í Kópavogi ætlar að styrkja starfsemi dægradvalar og stuðla þannig að auknum lífsgæðum barna, foreldra sem og starfsfólks sem stundum hlýtur litla viðurkenningu fyrir gott starf.
Hlín Bjarnadóttir skipar 11. sæti á lista Samfylkingarinnar í Kópavogi