Knattspyrnufélagið Augnablik 40 ára

Guðmundur Ólafur Halldórsson (Gummi tvíburi), fyrirliði Augnabliks tekur við lunda sem gjöf frá fyrirliða Hildibranda.

Í ár eru 40 ár síðan nokkrir ungir menn komu saman í þáverandi félagsheimili Breiðabliks í gömlum sumarbústað í Digraneshlíðinni og stofnuðu knattspyrnufélagið Augnablik. Eins og nafnið gefur til kynna voru allir þessir stofnfélagar tengdir Blikunum sterkum böndum og vildu halda þeim tengslum áfram. Á þeim tíma voru að koma upp mjög sterkir árgangar í meistaraflokkinn hjá Blikum og eins og oft áður var ekki pláss fyrir alla þessa leikmenn í meistaraflokki Breiðabliks.

Til að halda upp á þessi tímamót verður haldin afmælishátíð í Smáranum laugardaginn 7. maí. Þar verður einkum horft til fyrsta áratugarins í starfi félagsins.

Keppnismenn sem nenntu ekki að æfa

Leikskýrslan úr fyrsta leik Augnabliks. Þarna eru nokkur „legends“ í boltanum eins og markvörðurinn
Jón Ólafur Halldórsson, fyrrverandi forstjóri Olís og formaður Samtaka verslunar og þjónustu.

Augnablik tók þátt í Íslandsmótinu í knattspyrnu karla árið 1982 í fyrsta skipti. Liðið tók þátt í Íslandsmótinu innanhúss um veturinn og rauk strax upp um deild. Fyrsti opinberi leikur Augnabliks utanhúss var í bikarkeppni KSÍ 26. maí og var andstæðingurinn Reynir frá Hellissandi. Sigur vannst 0:5 og lagði þessi sigur grunninn að góðum árangri liðsins á komandi árum. Þrátt fyrir að vera skipað mörgum fyrrverandi unglingalandsliðsmönnum og öðrum mjög frambærilegum knattspyrnumönnum þá fór liðið aldrei upp um deild á upphafsárunum. Ein flökkusaga sagði að í reglum félagsins væri klásúla sem bannaði félaginu að fara upp um deild. Það var algjört bull því flestir leikmenn liðsins voru mikilir keppnismenn sem þoldu illa að tapa. Líklegasta skýringin var sú að menn nenntu ekki að æfa nógu mikið til að komast upp um deild, samkvæmt áreiðanlegum heimildum Kópavogsblaðsins. Þar að auki fóru lykilmenn oft í sumarfrí þegar komið var fram í úrslitakeppnina og þá féllu úrslitin ekki með Augnabliksmönnum. Þess má geta að mörg sterk lið voru í deild með Augnablik á þessum árum og má þar meðal annars nefna Stjörnuna, Gróttu og ÍR.

Spiluðu í kvenmannssundbolum

Það var ekki bara árangurinn á knattspyrnuvellinum sem vakti mest athygli á liðinu. Liðsmenn Augnabliks höfðu mikla sýniþörf og alls konar uppákomur utan vallar vöktu umtal og hrifningu. Þar má til dæmis nefna samvinnu við Trabantklúbbinn Skynsemin ræður. Þá hlupu Augnabliksmenn í halarófu með um 20 Trabantbílum sem upphitun fyrir einn heimaleikinn.  Fyrir annan heimaleik fengu Augnabliksmenn lögregluna til að mæta og handtaka fyrirliða liðsins í þann mund er hann var að heilsa dómara leiksins. Augnablik lék einu sinni sýningarleik í leikhléí í úrvalsdeildarleik hjá Blikum á Kópavogsvelli. Andstæðingarnr voru grínistarnir úr Hildibröndum frá Vestmannaeyjum. Hildibrandarnir spiluðu á pungbindinu einu saman á meðan Augnablikar voru í kvenmannssundbolum. Þess má geta að dómarinn í leiknum dæmdi  á franskt horn. Margar aðrar uppákomur áttu sér stað bæði innan vallar og utan sem verða vafalaust rifjaðar upp í Smáranum 7. maí n.k.

Björt framtíð 

Augnblik lifir enn góðu lífi. Strákarnir náðu loksins að koma sér upp úr neðstu deild fyrir nokkrum árum og spila nú í 3. deildinni. Meðal frægra knattspyrnumanna sem hafa stigið sín fyrstu skref í Augnabliksbúningnunum eru meðal annars landsliðsmennirnir Alfreð Finnbogason og Sverrir Ingi Ingason.

Fyrir nokkrum árum ákvað Breiðablik að nýta sér félagið til að senda lið í keppni í meistaraflokki kvenna. Ungar og efnilegar stúlkur hafa margar stigið sín fyrstu skref í meistaraflokki með Augnabliksliðinu. Augnabliksliðið spilar nú í næst-efstu deild og hefur með mikilli seiglu náð að halda sæti sínu þar undanfarin ár. Framtíðin er því björt og ljóst að augnablikið hefur náð að lifa mun lengur en frumkvöðlarnir sáu fyrir.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Niðurlagning Héraðsskjalasafns Kópavogs

Skaðræðisgjörningur bæjarstjórnar Kópavogs Bæjarstjórn Kópavogs ákvað á fundi sínum 25. apríl 2023 með sex atkvæðum meirihlutans gegn fimm atkvæðum minnihlutans að leggja niður Héraðsskjalasafn Kópavogs. Þar fetaði bæjarstjórnin í slóð

Hrönn Valgeirsdóttir, leikskólakennari og M.A. í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf.

Mikill áhugi á fræðslukvöldum fyrir foreldra

Foreldrum og forsjáraðilum leikskólabarna í Kópavogi stendur til boða að mæta á fræðslukvöld þar sem fjallað er um uppeldishætti, að setja mörk og ábyrgð og líðan foreldra. Fyrsti fundurinn var

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn