Kópavogsbæ hefur verið birt stefna af hálfu hluta erfingja Sigurðar K. Hjaltested fyrrum ábúenda á Vatnsenda. Eru dómkröfur stefnenda þær að Kópavogsbær greiði þeim kr. 74.811.389.954 vegna eignarnáms á landi í Vatnsenda árin 1992, 1998, 2000 og 2007, að því er fram kemur í tilkynningu frá Kópavogsbæ. Fjárhæð varakröfu er kr. 47.558.500.000. Málið verður þingfest 5. nóvember næstkomandi. Tilkynning frá Kópavogsbæ er svohljóðandi:
Kópavogsbær telur umrædda málsókn með öllu tilhæfulausa og fjárhæð dómkröfunnar í besta falli fráleita. Mun Kópavogsbær krefjast sýknu af öllum kröfum stefnenda. Kópavogsbæ hefur í fjögur skipti verið heimilað að taka land í Vatnsenda eignarnámi. Í öllum tilvikum fóru eignarnám fram á grundvelli eignarnámsheimildar frá opinberum stofnunum og ráðherra. Var Kópavogsbæ skylt að ráðstafa eignarnámsbótum til þinglýsts eiganda Vatnsenda sem jafnframt var ábúandi jarðarinnar. Aðrir opinberir aðilar sem framkvæmt hafa eignarnám í landi Vatnsenda hafa jafnframt ráðstafað eignarnámsbótum til ábúenda jarðarinnar á hverjum tíma. Þeir opinberu aðilar eru íslenska ríkið, Reykjavíkurborg og Landsvirkjun. Áréttað er að öll aðilaskipti að fasteignum eru háð þeirri grundvallarforsendu að aðilar megi treysta á réttmæti upplýsinga úr þinglýsingarbók. Önnur regla myndi leiða til gríðarlegrar óvissu um það kerfi sem gildir um skráningu eignarhalds að fasteignum á Íslandi. Kópavogsbær harmar að hann hafi verið dreginn inn í harðvítugar deilur milli erfingja að dánarbúi Sigurðar K. Hjaltested sem lést árið 1966. Umrætt dánarbú er enn til opinberra skipta.