Kópavogsbær fær tæplega 70 milljónir í fasteignagjöld úr ríkissjóði árlega en ríkissjóður greiðir yfir milljarð í fasteignagjöld til Reykjavíkurborgar. Þá greiddi Vegagerðin tæplega 467 milljónir til göngu- og hjólastíga í Reykjavík á árunum 2011-2014 en tæplega 36 milljónir til Kópavogsbæjar. Fjallað var um þessi mál á fundi bæjarráðs Kópavogs í vikunni, en bæjarstjóri Kópavogs óskaði eftir upplýsingum um greiðslurnar í fyrirspurn annars vegar til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og hins vegar til Vegagerðarinnar.
Bæjarráð beinir því til ríkisstjórnarinnar að gæta jafnræðis þegar staðsetning ríkisstofnana er ákvörðuð og segir eðlilegt að embætti Sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu verði utan Reykjavíkur „…í ljósi þess að nánast allar stofnanir ríkisins á höfuðborgarsvæðinu eru innan Reykjavíkur (sbr. svar fjármálaráðuneytisins) er eðlilegt að embættið verði staðsett utan hennar,“ segir bókun bæjarráðs.
Þá felur bæjarráð bæjarstjóra að ganga til viðræðna við Vegagerðina um tengingu alls höfuðborgarsvæðisins um Fossvog. „Átak Vegagerðarinnar um uppbyggingu göngu- og hjólastíga á höfuðborgarsvæðinu hefur að mestu beinst að Reykjavík. Næsti áfangi hlýtur að vera tenging alls höfuðborgarsvæðisins um Fossvog,“ segir í bókun bæjarráðs.