Kópavogsdagar, menningarhátíð Kópavogsbæjar, hefjast í dag klukkan 14.00 við Café Dix í Hamraborginni. Þar ætlar listakona Eygló Benediktsdóttir að vera með gjörninginn Líf/Leaf. Gjörningurinn felst í því að bjarga lífum með því að hengja handmáluð postulínslauf á tré við kaffihúsið. Bæjarstjóri Kópavogs, Ármann Kr. Ólafsson, mun með hjálp leikskólabarna frá Kópahvoli og Læk hengja upp fyrstu laufblöðin.
Þetta er í ellefta sinn sem Kópavogsdagar eru haldnir en hátíðin stendur til sunnudagsins 11. maí. Viðburðir eru af ýmsum toga og má nefna pönkhátíð á Spot og í Molanum, ævintýraleikrit fyrir börn í Bókasafni Kópavogs, djass og franskar aríur í Tónlistarsafni Íslands, spuna og leik í húsnæði Leikfélags Kópavogs og veggjalist í Hamraborginni. Ljóð fljóta í sundlaugum bæjarins og Karlakór Kópavogs ætlar að vera á rúntinum á laugardeginum og syngja fyrir gesti víða um bæ.
Á síðasta degi hátíðarinnar verður upplýst um útnefningu heiðurslistamanns og bæjarlistamanna. Athöfnin fer fram í Gerðarsafni. Lista- og menningarráð hefur frá árinu 1988 valið heiðurslistamann en í fyrsta sinn nú eru jafnframt útnefndir bæjarlistamenn. Með fyrrnefnda valinu er verið að heiðra listamann fyrir ævistarf en með síðarnefnda valinu er verið að velja efnilega listamenn til að sinna ákveðnu fræðslu – og menningarstarfi.
Nánari upplýsingar um dagskrá er að finna á heimasíðu hátíðarinnar www.kopavogsdagar.is