Kópavogslækurinn er ekki bara saklaus lítil spræna.

-Blóði drifin örlagasaga þar sem síðasta aftakan í Kópavogi fór fram.

 

Falleg brú yfir Kópavogslæk.
Falleg brú yfir Kópavogslæk.

Kópavogslækurinn komst í fréttirnar á dögunum þegar hann litaðist hvítur af mengun sem varð vegna viðhaldsframkvæmda verktaka á bílageymslu í Seljahverfi. „Þessi hvíti litur í læknum er nú ekkert miðað við blóði drifna sögu hans,“ varð vegfaranda að orði eftir að hafa lesið upplýsingaskilti sem reist var nýverið, neðarlega við Kópavogslækinn. Þar kemur fram að umhverfi Kópavogslækjarins hafi fyrr á öldum verið hluti mikilla atburða í tengslum við Kópavogsþingstaðinn. Á nokkrum stöðum hafa menn fundið dysjar sakamanna sem líflátnir voru á þingstaðnum. Þekktustu dysjarnar eru alveg við Kópavogslækinn og má þar nefna Systkinaleiði, sem reyndar fór undir Hafnarfjarðarveginn snemma á síðustu öld. Öllu þekktari eru þó Hjónadysjar, sem voru austan megin við veginn og voru opnaðar 1988 áður en Hafnarfjarðarvegurinn var breikkaður það ár. Fundust þar beinagrindur karls og konu og hafði karlinn verið hálshöggvinn. Reyndust þar vera komnar jarðneskar leifar þeirra Steinunnar Guðmundsdóttur og Sigurðar Arasonar frá Árbæ, en þau voru líflátin á Kópavogsþingstað árið 1704, sek fundin um að hafa myrt Sæmund, eiginmann Steinunnar. Hafði Sigurður slegið hann í höfuðið með fótafjöl af rokki og síðan hrundið honum í Skötufoss í Elliðaám, þar sem þeir voru við veiðar. Var Sigurður hálshöggvinn á þingstaðnum en Steinunni drekkt í Kópavogslæknum, sem var nýlunda því áður hafði verið drekkt í Elliðaám syðri. Mun þetta vera síðasta aftakan sem fram fór í Kópavogi.

kopavogslækkurÁður en Kópavogslækurinn var brúaður í lok 19. aldar gat hann verið mikill farartálmi þegar leysingar voru miklar.  Þó voru á læknum vöð sem menn fóru yfir, en gátu verið varasöm þegar vatnavextir voru miklir.  Þann 1. mars 1874 drukknuðu tvö ungmenni í læknum.  Tildrög slyssins voru þau að þennan dag höfðu þrjú barna Árna Björnssonar, bónda í Hvammkoti (síðar Fífuhvammi), farið til Reykjavíkur til kirkju með frændkonu þeirra sem gekk til prests.  Að áliðnum degi héldu systkinin heimleiðis. Er þau komu að læknum var hann í foráttuvexti vegna mikilla leysinga um daginn. Ætluðu þau yfir á broti eða vaði sem þau þekktu og fór Árni yngri, 15 ára, fyrstur, þá Sigríður Elísabet, 17 ára og síðustu Þórunn, 19 ára og leiddust þau út í lækinn.  Miðja vegu missti Árni fótanna og féll í lækinn.  Ætluðu systur hans að grípa til hans en féllu þá báðar í strenginn.  70-80 föðmum neðar skolaði Sigríði Elísabetu á grynningar þar sem hún gat fótað sig og komist heim til bæja. Fór faðir þeirra ásamt næturgestum er þar voru strax til lækjarins sem þá var orðinn með stíflum og jakaburði. Fundu þeir eldri stúlkuna eftir nokkra leit á jaka í ánni og var hún látin en drengurinn fannst ekki fyrr en daginn eftir.

Mikið var um þetta skrifað í blöðum, sérstaklega Þjóðólfi sem séra Matthías Jochumson ritstýrði um þær mundir.  Þar birtist kvæði Matthíasar um þessa atburði er hann nefndi: „Börnin frá Hvammkoti.“  Örfáum árum síðar var loksins komin brú á þennan fartálma sem svo margir höfðu orðið fyrir barðinu á í gegnum aldirnar.
Texti fenginn úr upplýsingaskilti við Kópavogslæk.  Gefinn af Lionsklúbbi Kópavogs, Lionsklúbbi Munins og Lionsklúbbi Ýr, Rotaryklúbbi Kópavogs og Kiwanisklúbbi Eldey og Kiwanisklúbbi Góa. 

kopavogslaekur

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn