Breiðablik tekur yfir rekstur íþróttamannvirkja við Kópavogsvöll samkvæmt samningi sem Kópavogsbær og Breiðablik hafa gert með sér. Þetta er tilkynnt á vefsíðu bæjarins, kopavogur.is.
Undanfarin ár hefur Kópavogsbær átt viðræður við fjölgreina íþróttafélög í bænum, sem eru HK og Breiðablik, um þjónustu félaganna við bæjarbúa. Í október í fyrra samþykkti bæjarstjórn Kópavogs samninga við félögin og tók HK við rekstri íþróttamannvirkja í Kór um áramótin.
HK hefur nú óskað eftir heimild frá Knattspyrnusambandi Íslands þess efnis að heimaleikir félagsins í knattspyrnu fari fram í knatthúsi Kórsins. Gangi það eftir verður Kópavogsvöllur eingöngu heimaleikvangur Breiðabliks og mun félagið, eins og áður segir, sjá um rekstur stúkumannvirkis á vellinum. Kópavogsbær mun sjá um rekstur og alla umhirðu og viðhald grassvæða á Kópavogsvelli.