Kópavogur er tónlistarbær

Aino Freyja Jarvela, forstöðumaður Salarins. Ljósmynd: Geir Ólafsson.
Aino Freyja Jarvela, forstöðumaður Salarins. Ljósmynd: Geir Ólafsson.

Lista- og menningarráð Kópavogs samþykkti á dögunum tillögu forstöðumanns Salarins um að koma á tónleikasjóði fyrir Salinn og er það gert í framhaldi af nýlega samþykktri menningarstefnu bæjarins. Tónleikasjóðurinn er fjármagnaður með framlagi úr lista- og menningarsjóði Kópavogsbæjar en hlutverk hans er að auðga menningarlífið í bænum. Tiltekið hlutfall af útsvarsstofni rennur í lista- og menningarsjóð á ári hverju. Aino Freyja Jarvela, forstöðumaður Salarins, segir Salinn hafa verið fyrsta sérhann-aða tónlistarhús landsins sem var byggður utan um tónlist og öflugt tónleikahald bæjarins. „Í um áratug áður en Salurinn kom til sögunnar stóð Kópavogsbær árlega fyrir á þriðja tug tónleika sem fóru fram í kirkjum bæjarins og í Gerðarsafni eftir að það kom til. Með tilkomu Salarins efldist tónleikahald á vegum bæjarins til muna með nokkra tugi tónleika á ári auk heimsókna allra grunnskólabarna bæjarins á vegum „Tónlistar fyrir alla.“ Starfið í Salnum breyttist töluvert í kjölfar efnahagshrunsins vegna gríðarlegs niðurskurðar. Tvö stöðugildi voru lögð niður auk þess sem tónleikahald á vegum bæjarins var lagt af í þeirri mynd sem áður var. Í nýsamþykktri menningarstefnu er kallað eftir því að sérstaða Salarins verði efld enn frekar. Það má því segja að nú sé verið að stíga fyrsta skrefið í átt að því að stuðla að og styðja við metnaðarfullt tónlistarlíf í Salnum og þar með í Kópavogi. Hús eins og Salurinn á að vera lifandi vettvangur fyrir tónlistarmenn og fyrir tónlistarsköpun þar sem bæjarbúar og aðrir landsmenn á öllum aldri geta upplifað það besta sem völ er á í tónlistarheiminum.“

Hvert er markmiðið með tónleikasjóðnum? Á að auka vægi klassískrar tónlistar, eða þeirrar sem á undir högg að sækja í miðasölu?
„Markmið tónleikasjóðs Salarins er að efla fjölbreytt tónleikahald í Salnum og gefa tónlistarmönnum færi á að koma fram í einum besta tónleikasal landsins. Við leitum aðallega að verkefnum sem henta Salnum sem tónlistarhúsi og nýta kosti hans til hins ítrasta.  Því er sóst er eftir viðburðum af  öllum stærðum og gerðum og nýrri sýn hvort heldur í klassík, poppi, pönki, jazzi eða annarri tónlistarstefnu. Jafnframt stefnum við að því með tilkomu nýja sjóðsins að stækka enn frekar áheyrendahóp Salarins með fjölbreyttu tónleikahaldi. Salurinn veitir bæði Kópavogsbúum og öðrum gestum frábær skilyrði til að njóta góðrar tónlistar og er að minni hyggju einstök perla í tónlistarlífi landsins.“

Hvaða kröfur eru gerðar til umsækjenda?
„Við leitum að hugmyndaaugði og áhugaverðum verkefnum og að sjálfsögðu verður litið til reynslu og fyrri starfa umsækjenda.  

Hvað hefur Salurinn fram yfir aðra tónlistar- og ráðstefnusali á landinu?
„Sérstaða Salarins er án efa hversu góður hljómburður er í Salnum og hversu hlýlegur og persónlegur hann er. Allt þetta skapar nánd og góða stemningu sem myndast milli þeirra sem standa á sviðinu og þeirra sem sitja út í sal. Það er alltaf góð stemning í Salnum og fastagestir okkar hafa orð á hversu notalegt er að koma í Salinn.“

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn