Ármann Kr.Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs undirritaði í dag yfirlýsingu borgar- og bæjarstjóra hvaðanæva að um skuldbindingu baráttu fyrir réttindum barna. Yfirlýsingin var samþykkt á ráðstefnu UNICEF um barnvænar borgir sem fram fer í Köln. Ingunn Sif Þórðardóttir nemandi í Kársnesskóla í Kópavogi tók þátt í ráðstefnunni fyrir hönd barna í Kópavogi.
Með yfirlýsingunni skuldbinda borgir og bæir sig til að leggja áherslu á bætta líðan barna, að börnum verði tryggð jöfn tækifæri, styrkt og efld í þroska og þátttöku í samfélaginu. Þá skuldbinda þátttakendur sig til að sýna fram á árangurinn með mælanlegum hætti.
„Hjá Kópavogsbæ vinnum við nú að innleiðingu Barnasáttmála SÞ og yfirlýsingin er í samræmi við þær áherslur sem við höfum sett í málefnum barna hjá bænum. Mælaborð barna sem við höfum þróað hjá bænum fellur svo vel að þeim markmiðum sem koma fram í yfirlýsingunni,“ segir Ármann.
Í gær hlaut Mælaborð barna verðlaun á ráðstefnunni sem framúrskarandi lausn og nýsköpun í nærumhverfi barna. Mælaborðið er þróað af Kópavogsbæ í samvinnu við félagsmálaráðuneytið og UNICEF á Íslandi.
Mælaborðinu er ætlað að safna tölfræðigögnum og greina þau. Tilgangurinn er að fá fram betri mynd af almennri stöðu barna í samfélaginu hverju sinni og beina sjónum stjórnvalda að verkefnum sem brýnt er að takast á við og forgangsraða. Markmiðið er að það verði nýtt af sveitarfélögum innanlands og utan.
Alls rituðu 40 leiðtogar borga og bæja undir yfirlýsinguna í dag, auk Kópavogs, borgarstjóri Kölnar í Þýskalandi, Madrid á Spáni, Seúl í Suður Kóreu og Montpellier í Frakklandi svo dæmi séu tekin.