Kópavogsbær er kominn í samstarf við OECD, Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, í tengslum við innleiðingu bæjarfélagsins á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Fulltrúar OECD komu af því tilefni til þriggja daga vinnufundar í Kópavogi í vikunni ásamt fulltrúum frá Viken-héraði í Noregi. Viken er, ásamt Kópavogi og fimm öðrum sveitarfélögum eða landshlutum um heim allan, þátttakandi í verkefni OECD sem hefur það að markmiði að búa til samanburðarhæfar mælingar milli sveitarfélaga á alþjóðavísu sem nýtast við innleiðingu Heimsmarkmiðanna. Þá gefst þátttakendum í verkefninu færi á að deila þekkingu og reynslu af því hvernig staðið er að staðfærslu og innleiðingu Heimsmarkmiðanna.
Samstarfið mun nýtast okkur við að gera árangurmælikvarða svo við getum mælt hvernig til hefur tekist í kjölfar samþykktar á heildarstefnu Kópavogsbæjar þar sem yfirmarkmiðin eru Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Mælikvarðarnir munu svo nýtast til að gera rekstur sveitarfélagsins og áætlanagerð alla markvissari sem síðan skilar sér í betra samfélagi fyrir alla Kópavogsbúa,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.
Þá daga sem hópurinn dvaldi hér á landi fékk hann kynningu á þeim mælingum og þeirri aðferðafræði sem hefur verið lögð til grundvallar í Kópavogi.
Þá fundaði hópurinn með fulltrúum fyrirtækja, stofnana, félagasamtaka og ráðuneyta auk þess að haldnar voru vinnustofur með verkefnahópi innleiðingar Heimsmarkmiðanna í Kópavogi og bæjarfulltrúum Kópavogsbæjar.
Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti í september síðastliðnum að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í stefnu Kópavogsbæjar.