Kópavogsbær hefur opnað bókhald bæjarins með aðgengilegri veflausn á vefsíðu bæjarins. Þar er að finna upplýsingar um færslur ársins 2014, 2015 og fyrstu 6 mánuði ársins 2016. Kópavogsbær er fyrsti opinberi aðilinn á Íslandi sem opnar bókhald sitt með þessum hætti og markar viðburðurinn tímamót í stjórnsýslu á Íslandi.
„Með opnun bókhaldsins er stigið stórt skref í átt að opnari og gagnsærri stjórnsýslu og geta nú íbúar og aðrir áhugasamir fylgst með því hvernig fjármunum sveitarfélagsins er varið,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.
„Opið bókhald er hluti af nútímalegri stjórnsýslu og það er ánægjulegt að við séum í fararbroddi í þeim efnum. Við höfum lagt áherslu á aukið samráð við íbúa og upplýsingaflæði til þeirra, opið bókhald er hluti af þeirri stefnu,“ segir Theodóra S. Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs Kópavogs.
Á vefnum er hægt að skoða hvaða greiðslur sveitarfélagið innti af hendi og til hverra. Hægt er að skoða útgjöld stjórnsýslunnar, einstakra stofnana og deilda. Ekki er hægt að skoða einstaka reikninga en hægt er skoða á aðgengilegan hátt samanlagða upphæð reikninga út frá málflokkum, deildum, stofnunum, fjárhagslyklum og viðskiptavinum, það er að segja fyrirtækjum sem Kópavogsbær skiptir við.
Lausnin er unnin í samvinnu upplýsingatæknideildar Kópavogsbæjar og nemenda í tölvunarfræði hjá Háskólanum í Reykjavík. Lausnin var lokaverkefni nemenda sem áður höfðu verið í sumarvinnu hjá Kópavogsbæ en unnið hefur verið að opnun bókhaldsins frá árinu 2014.
Vefurinn er enn í þróun og enn sem komið er einungis studdur að fullu í Chrome-vafranum. Unnið er að því að gera hann aðgengilegan í snjalltækjum.
Nánari upplýsingar: www.kopavogur.is/hvertfarapeningarnir