Viðræður um kjarasamningagerð á milli starfsmannafélags Kópavogsbæjar (SfK) og kjarasviðs sambands íslenskra sveitarfélaga, fyrir hönd Kópavogsbæjar, hófust með gerð viðræðuáætlunar í febrúar síðastliðnum og lauk með samningum sem undirritaðir voru í júlí síðastliðnum. Jófríður Hanna Sigfúsdóttir, formaður SFK, segir að eftir að samningarnir hafi verið undirritaðir hafi Kópavogsbær varpað fram sprengju sem hleypti illu blóði í félagsmenn.
Kópavogsbær krafðist að svokölluð „háskólabókun“ ætti að fara út úr kjarasamningi. En hún hljóðar eftirfarandi: „Kópavogsbær lýsir yfir vegna Starfsmannafélags Kópavogs að launaþróun og launasamsetning háskólamenntaðra starfsmanna innan SfK verði með sambærilegum hætti á samningstímanum og hjá þeim stéttarfélögum sem þeir ella myndu tilheyra.“ Þetta ákvæði vildi Kópavogsbær burt. Í samtölum við félagsmenn kom fram kraumandi óánægja með bæði starfskjör og aðbúnað sem flestir vilja fá leiðréttingu á.
Á fundum með trúnaðarmönnum kom fram kaumandi óánægja félagsmanna með launakjör og viðhorf bæjarins til starfsmanna sinna. Jófríður segir að stjórn SfK hafi óskað eftir fundi með meirihluta í bæjarstjórn Kópavogs vegna þeirrar stöðu sem upp var komin, en því var hafnað af bæjarstjóra.
Um eitt þúsund starfsmenn bæjarins eiga aðild að SfK, að sögn Jófríðar. Á fjölmennum félagsfundi í Salnum nýverið var samþykkt að ganga til kosninga um aðgerðir. Af 710 manna úrtaki kusu 446 félagsmenn. 89,89% þeirra samþykkti að leggja niður störf dagana 14., 15., 21. og 22. október næstkomandi. Samþykkt var að hefja allsherjar vinnustöðvun í Kópavogi frá fyrsta nóvember ef samningar hafi ekki nást fyrir þann tíma. Slíkt muni hafa víðtæk áhrif, að sögn Jófríðar:
Starfsemi grunnskóla, leikskóla, íþróttahúsa og sundlauga bæjarins mun þá lamast, einnig þjónustuverið, tölvudeildin, innheimtan, bókhaldið og starfsemi hjá velferðarsviði bæjarins.
Næsti samningafundur hefur verið boðaður þann fyrsta október.