Þann 7. september stígur Kristinn Sigmundsson á svið með félaga sínum Jónasi Ingimundarsyni og flytur fjórtán ný sönglög eftir Þorvald Gylfason við ljóð Kristjáns Hreinssonar. Með þeim félögum verður sellóleikarinn Bryndís Halla Gylfadóttir auk þess sem Kristján mun flytja stuttar skýringar með kvæðunum.
Ljóðaflokkurinn er óður til lífsins með fegurð himinsins að leiðarljósi. Þessir tónleikar eru handa þeim sem unna fögrum skáldskap og kjósa helst að koma syngjandi heim úr Salnum, segir í frétt á vef Salarins.
Í lok október bregður við annan tón hjá Kristni þegar hann flytur sígild íslensk dægurlög eftir Jón Múla Árnason, Sigfús Halldórsson og Oddgeir Kristjánsson, ásamt okkar ástkæru söngkonu Sigrúnu Hjálmtýsdóttur við undirleik Björns Thoroddsen á gítar og Gunnars Hrafnssonar á bassa.
Gestir munu án efa fara trallandi heim dægurlög á borð við Ég veit þú kemur, Litla flugan, Fröken Reykjavík, Vegir liggja í allar áttir og Úti er alltaf að snjóa sem fjóreykið mun skila á líflegan og einstakan máta ásamt fleiri lögum á tónleikunum sjálfum.