Bikarmeistaramót Karatesambands Íslands fór fram nú um helgina. Á bikarmótinu er keppt bæði í kata og kumite, þar sem stigahæsti einstaklingurinn stendur uppi sem sigurvegari, en gefin eru 10 stig fyrir 1.sæti, 8 stig fyrir 2.sæti, 6 stig fyrir 3.sæti og 3 stig fyrir 5-6.sæti. Fyrir mótið var ljóst að nýr bikarmeistari kvenna yrði krýndur þar sem meistarinn frá því í fyrra tók ekki þátt vegna meiðslna.
Góð þátttaka var á mótinu þar sem um 30 einstaklingar voru skráðir til keppni og margir af þeim kepptu bæði í kata og kumite. Flest allt landsliðsfólk okkar var mætt til leiks enda er bikarmótið liður í undirbúningu þess fyrir Norðurlandameistaramótið sem fer fram í Riga, Eistland, 12.apríl næstkomand en Ísland sendir 20 keppendur á mótið í ár.
Fyrst var keppt í kata þar sem í kvennaflokki sigraði Svana Katla Þorsteinsdóttir stöllu sína úr Breiðablik, Kristínu Magnúsdóttur, en Telma Rut Frímannsdóttir, Afturelding, og María Helga Guðmundsdóttir, Þórshamri, lentu í 3.sæti. Í karlaflokki sigraði Elías Snorrason, KFR, Kristján Helga Carrasco, Víking, en þeir félagar úr Breiðablik, Davíð Freyr Guðjónsson og Heiðar Benediktsson lentu í 3.sæti. Í kumiteflokki kvenna sigraði Telma Rut Frímannsdóttir Katrínu Ingunni Björnsdóttur, Fylki, en María Helga Guðmundsdóttir og Kristín Magnúsdóttir lentu í 3.sæti. Í kumiteflokki karla sigraði Kristján Helgi Carrasco hann Ólaf Engilbert Árnason úr Fylki eftir mjög skemmtilegan bardaga. Í karlaflokki lentu Sverrir Ólafur Torfason, Víking, og Sæmundur Ragnarsson, Þórshamri, í 3.sæti.
Þegar stigin voru talin saman í kvennaflokki þá stóð Telma Rut Frímannsdóttir, Aftureldingu, uppi sem sigurvegari og endurheimti því bikarmeistaratitil sinn frá árinu 2012. Í karlaflokki sigraði Kristján Helgi Carrasco, Víking, fimmta árið í röð, sem er einsdæmi í sögu Karatesambandsins en enginn einstaklingur hefur unnið bikarmeistaratitil svo oft í röð. Að auki jafnaði Kristján Helgi met þeirra félaga Ingólfs Snorrasonar og Jóns Inga Þorsteinssonar sem unnu bikarmeistaratitla 5 skipti hvor á árunum 1996 til 2005.
Heildarstig kvennaflokkur
1.sæti Telma Rut Frímannsdóttir, Afturelding 16 stig
2.sæti Kristín Magnúsdóttir, Breiðablik, 14 stig
3.sæti María Helga Guðmundsdóttir, Þórshamri 12 stig
Heildarstig karlaflokkur:
1.sæti Kristján Helgi Carrasco, Víkingur 18 stig
2.sæti Elías Snorrason, KFR 10 stig
3.sæti Heiðar Benediktsson, Breiðalbik 9 stig
Seinna um daginn var svo haldið Bushido bikarmótið fyrir unglinga þar sem þátttakendur voru á aldrinum 12-17 ára, keppt var bæði í kata og kumite þar sem aldur keppenda er miðað við upphaf keppnisvetrar Karatesambandsins sem hefst að hausti til.
Helstu sigurvegarar voru;
Kata 12 ára, Þorsteinn Björn Guðmundsson, Breiðablik
Kata 13 ára, Mary Jane Padua Rafael, Víkingur
Kata 14 ára, Laufey Lind Sigþórsdóttir, Breiðablik
Kata 15 ára, Katrín Kristinsdóttir, Breiðablik
Kata 16-17ára, Bogi Benediktsson, Þórshamar
Kumite drengja 12-13 ára, Viktor Steinn Sighvatsson, Fjölnir
Kumite telpna 12-13 ára, Mary Jane Padua Rafael, Víkingur
Kumite pilta 14-15 ára, Þorsteinn Freygarðsson, Fylkir
Kumite stúlkna 14-15 ára, Edda Kristín Óttarsdóttir, Fylkir
Kumite pilta 16-17 ára, Ólafur Engilbert Árnason, Fylkir