Krossgátusmiðurinn á Kársnesi

Sagt er og sannað að krossgátur eru holl hugarleikfimi sem örvar og þjálfar minni. Allir geta leyst krossgátu og fundið sitt erfiðleikastig við hæfi.

Kársnesingurinn Bragi Halldórsson semur krossgáturnar sem birtast í Kópavogsblaðinu en hann hefur síðustu 16 ár fengist við að semja slíkar gátur fyrir blöð og tímarit auk mynda- og barnagáta. Daglega er lítil krossgáta eftir hann í Fréttablaðinu sem samkvæmt talningu Braga eru orðnar hvorki fleiri né færri en 4.300 talsins.

Bragi segir krossgátusmiði hálfgerðan hulduher svo fólk verður oft hvumsa þegar
það kemst að því við hvað hann starfar enda hugleiða fæstir hverjir það eru sem
semja krossgátur. „Íslendingar hafa svo gaman af íslenskunni, það sést hvað við
getum rifist um hana. Þeim fækkar ekki sem hafa samband við mig til að falast eftir
krossgátum. Krossgátan lifir góðu lífi.“

Krossgáta með kaffinu

„Ég fæ reglulega að heyra af fólki finnst ómögulegt að byrja daginn án þess að leysa daglegu krossgátuna með fyrsta kaffibolla dagsins,“ segir Bragi og hlær. „Fátt er sjálfsagt betra en smá heilaleikfimi með morgunkaffinu til að koma sér í gang inn í daginn. Ég reyni því að smíða þær þannig að ekki eigi að taka nema um „kaffibolla“ að leysa þær. Þó verð ég að hafa eitthvað hæfilega snúið í hverri gátu svo heilinn þurfi nú aðeins að hafa fyrir því að leysa þær þótt þær eigi ekki að vera erfiðar. Það getur verið ansi erfitt því formið er stíft og ég reyni hvað ég get að forðast endurtekningar. Óhjákvæmilega koma þó sömu stuttu orðin oft fyrir en þá er að leita uppi eftir bestu getu nýjar og nýjar vísbendingar fyrir þau orð.“

Stuttu orðin fyrst

„Ef maður er óvanur eða dottinn úr þjálfun þá er oftast best að leita fyrst uppi stuttu orðin, tveggja, þriggja og fjögurra stafa orð,“ útskýrir Bragi, spurður um hver sé besta leiðin til að leysa krossgátu fyrir óvana. „Stuttu orðin eru almennt auðveldust svo með þau leyst er auðveldara að reikna út hver lengri orðin eru komin með nokkra stafi í þau.“
Bragi segir að algengasta lengd íslenskra orða sem við notum mest séu fimm stafir. „Þó eru samtengingar og smáorð eðlilega lang algengastar eins og „að“ og „og“ en einnig mörg þriggja stafa orð. Mörg þeirra eiga sér ekki nema eitt eða tvö samheiti sem hægt er að nota í þeirra stað, svo þau eru því ætíð auðveld.“ Bragi útskýrir að það sé nær útilokað að semja heila samheita krossgátu án þess að þurfa að nota eitthvað af tveggja og þriggja stafa orðum og eru þau oftlega þau sömu aftur og aftur sökum þess hvað þau eru fá.
„Það er vegna þess að krossgátur eru kassalaga og það þarf að fylla í alla reitina. Engin krossgátuhöfundur fær þetta flúið svo ein af glímunum sem hver höfundur þarf að leysa er að reyna að hafa sem allra fæst tveggja og þriggja stafa orð. Þó er það samþykkt regla að nota sem dæmi „tveir eins = pp.“ Ég nota þó ekki eins og „tveir samhljóðar,“ sem mér finnst margir nota. Það finnst mér frekar billeg leið en hver hefur jú sinn stíl.“

Höfundareinkenni

„Það eru margar svona hefðir í krossgátum sem maður lærir smám saman að glíma við,“ segir Bragi. „Til að flækja málið þá eru þó engir tveir krossgátuhöfundar eins. Hver fyrir sig hefur sín höfundareinkenni. Ef maður er byrjandi eða er að rifja upp færnina, þá er best að halda sig við bara einn krossgátuhöfund til að byrja með til að læra inn á hann. Eftir að því hefur verið náð, þá er ennþá skemmtilegra að fara að glíma við einhvern annan. Flestir byrja þó oftast á að standa alveg á gati því viðkomandi notar aðrar aðferðir en sá fyrri. Þá þarf að læra upp á nýtt hver persónueinkenni þess höfundar eru. Hversu gaman fólk hefur af krossgátum fer oft eftir höfundum og eru því sumar gátur sem birtast reglulega vinsælli en aðrar.“

Daglegt mál og klassísk krossgátuorð

Bragi segir fólk helst kvarti yfir því að krossgátuhöfundar noti of mikið af gömlum úreltum orðum sem enginn þekkir lengur nema kannski harðasta krossgátufólk. „Því ákvað ég að minnka verulega að nota slík orð og hef uppskorið þakkir fyrir frá krossgátufólki sem finnst krossgáturnar mínar vera fyrir vikið meira á nútímamáli. Ég reyni því að hafa sem mest orð sem við notum í dag og ættu að vera flestum kunn. Þó má ekki alfarið nota daglegt talmál því þá yrðu gáturnar allt of auðveldar, svo ég sæki líka í bókmál sem oft eru orð sem sjaldnar eru notuð þótt það séu úr bókum skrifuðum í dag. Ég reyni að sigla milli skers og báru og hef þetta í huga fyrir þær gátur sem ég sem fyrir Kópavogsblaðið. Klassísk krossgátuorð verða þó líka að fá að fljóta með eins og „aða = skel“.“ Við notum orðið „aða“ vart nokkurn tímann en það hefur fylgt Íslenskum krossgátum alla tíð en saga þeirra er orðin yfir 100 ára síðan fyrsta krossgátan birtist á prenti hér á landi.“

Bragi heldur úti vefnum krossgatur.gatur.net með yfir 300 ókeypis krossgátum og lausnum þeirra.

Umræðan

Fleiri fréttir

Aðventuhátíð Kópavogs

Aðventuhátíð í Kópavogi verður haldin með pompi og pragt, laugardaginn 30. nóvember. Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri tendrar ljósin á jólatré Kópavogsbæjar við menningarhúsin við hátíðlega athöfn kl. 17. Jólasveinar bregða á

Fjárhagsáætlun samþykkt

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs að lokinni seinni umræðu í vikunni Einnig var samþykkt þriggja ára áætlun fyrir tímabilið 2026-2028. Í tilkynningu frá Kópavogsbæ segir að

Sóley heimsmeistari

Sóley Margrét Jónsdóttir varð í síðustu viku heims­meist­ari í kraft­lyft­ing­um með búnaði í +84 kg flokki og tryggði sér um leið réttinn til að keppa á Heimsleikunum (World Games) sem

Hættum keðjuverkandi skerðingum

Ég verð bara að segja eins og er að ég var kominn með bullandi ofnæmi fyrir ríkisstjórninni og sennilega var ríkisstjórnin einnig kominn með alvarlegt bráðaofnæmi fyrir sjálfri sér. Já,