Kvennakór Kópavogs fagnaði sumri með söng og gleði í byrjun maí. Kórstarfið hefur verið bæði skemmtilegt og fjölbreytt í vetur. Í nóvember hélt kórinn árlega styrktartónleika sína undir yfirskriftinni „Hönd í hönd“. Tónleikarnir voru haldnir í samstarfi við Lindakirkju og allur ágóði rann til Umhyggju, félags til stuðnings langveikum börnum. Alls söfnuðust um 800.000 krónur. Fjöldi listamanna lagði málefninu lið með því að leggja fram vinnu sína án endurgjalds auk annarra sem komu að framkvæmd tónleikanna. Kórinn efndi einnig til fleiri viðburða eins og jólasöngs á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu og skemmtikvölds með öðrum kórum þar á meðal Samkór Kópavogs í janúar. Í mars var haldin opinn kóræfing í Gerðasafni og er það ásamt fleiru gert til að sýna bæjarbúum þakklætisvott fyrir styrk sem bærinn veitir til kórstarfsins.
Undirbúningur vortónleika kórsins hefur staðið frá því í fyrrahaust. Efnisvalið er fjölbreytt allt frá sígildum íslenskum dægurperlum til Madrigala, ABBA og 80´s rokks. Kórfélagar hafa ekki aðeins lagt á sig strangar æfingar við undirbúning tónleikanna, heldur líka brugðið sér í sveitina þar sem kórkonur tóku til hendinni. Flestar voru með sveitastörfin á hreinu en stutt í borgarbarnið í öðrum og púðurdósunum brugðið á loft við aðstæður sem ekki er algengt að sjá. Aðrar sýndu að fyrir sannar dömur fara heygafflar og olíudælur vel við háhælaða skó og rauðan varalit. Kórkonur kunna svo sannarlega að hafa gaman að öllum verkefnum sem þær taka sér fyrir hendur.