Ballettskóli Eddu Scheving var stofnaður árið 1961 er því að hefja sitt 57. starfsár. Í 20 ár hefur skólinn verið með útibú fyrir forskólaaldur í Grafarvogi en annars fer aðal starfsemi skólans fram í nýju og glæsilegu húsnæði í Skipholti 50c. Þar eru tveir salir og hefur skólinn því aukið töluvert starfssvið sitt. Í vetur verður skólinn einnig með ballett í Kópavogi, nánar tiltekið í Smáranum í Dalsmára. Kennsla fer fram á laugardögum og er fyrir aldurinn 2ja – 6 ára.
Veturinn skiptist í tvær 12 vikna annir og endar haustönnin með foreldrasýningu í kennslusal en á vorin er skólinn með glæsilegar nemendasýningar í Borgarleikhúsinu. Skólinn sérhæfir sig í kennslu í klassískum ballett en býður nú einnig upp á jazzballett og söngleikjadans fyrir forskóla og jazz/modern fyrir eldri nemendur. Þá er einnig í boði þjálfun fyrir ballerínur sem geta ekki hætt að dansa á aldrinum 20-30 ára, Pilates tíma, ballett-fitness fyrir fullorðna og námskeið fyrir 65 ára og eldri. Vetrarstarf skólans hefst 11. september og er innritun hafin. Skoða má allar upplýsingar á síðu skólans www.schballett.is
„Við erum afskaplega glaðar með að vera komnar í Kópavoginn,“ segir Brynja Scheving skólastjóri Ballettskólans. „Við fáum salinn uppi á annarri hæð hjá Breiðablik og búið er að setja upp fína stundaskrá fyrir börn á aldrinum 2ja til 6 ára. Við hlökkum mikið til að geta þjónustað íbúa Kópavogs og nágrennis. Ballettinn er góður grunnur fyrir svo margt og hvort sem börnin halda áfram að æfa ballett síðar þá er víst að grunnurinn sem þau fá er mjög góður. Í forskólanum læra börnin grunnstöður og æfingar í klassískum ballett sem hæfa þeirra aldri og þroska en skipt er í hópana eftir aldri. Þau gera æfingar sem liðka og styrkja, læra að standa í röð og fylgja settum reglum. Litlum sporum og æfingum er svo fléttað inn í litla látbragðsdansa og leiki eins og til dæmis blómið, fiðrildin, mýs og kisur og margt fleira. Þetta er mjög þroskandi og afar skemmtilegt prógramm sérhannað fyrir þessa aldursflokka. Svo eftir því sem þau eldast og þroskast tekur meira alvara við og prógrammið verður þá oftar í viku.”
Myndirnar hér að neðan sýna nemendur dansa á glæsilegum nemendasýningum skólans í Borgarleikhúsinu. Á sýningunum, sem er án efa hápunktur vetrarins, koma allir nemendur skólans fram, allt frá 3ja ára aldri.