Sviðslistahópurinn CGFC hefur hlotið tilnefningu til Grímuverðlaunanna 2020 í flokkinum Leikrit ársins, fyrir verk sitt Kartöflur sem sýnt var í Borgarleikhúsinu síðastliðið haust. Hópurinn myndaðist í Skapandi Sumarstörfum í Kópavogi árið 2015, og hefur síðan þá sett upp 9 sýningar innan Kópavogs sem utan.
Sýningin er heimildaleikrit um íslenska kartöflubændur og hvernig íslenskur nútími kallast á við fortíðina í gegnum þetta vinsæla grænmeti, auk þess að farið er í saumana á því hvernig snakk er búið til. Þar sem verkið var unnið með lágmarks fjármagn, tók hópurinn til þess ráðs að rækta leikmyndina frá grunni í staðinn fyrir að kaupa hana, og samanstendur hún af Helgum og Blálandsdrottningum sem gróðursettar voru í Svínadal. Verkið var unnið í mánaðarlöngu ferli fyrir Umbúðarlaust sviðið í Borgarleikhúsinu, en verður sett upp aftur á Litla Sviðinu í haust og er hópurinn því um þessar mundir að fara að stinga niður útsæði fyrir næstu uppskeru.