Bandarisk kvikmynd um ferðalag tveggja manna um Ísland:
Bandarísk/íslenska kvikmyndin Land Ho! verður opnunarmynd RIFF sem sett verður í Háskólabíói þann 25. september. Um er að ræða vegamynd í léttum dúr sem fjallar um tvo roskna vini og ferðalag þeirra fyrst um Reykjavík þar sem næturlífið er skoðað og svo er farið vítt og breytt um Ísland. Myndin er að mestu tekin upp hér á landi. Kvikmyndin hefur fengið afbragðsdóma vestanhafs, meðal annars á kvikmyndasíðunni Rotten Tomatoes. Myndin var frumsýnd við góðar undirtektir á hinni virtu Sundance hátíð síðastliðinn janúar. Myndina telja aðstandendur RIFF vera eins konar óð til ferðamennskunnar á Íslandi.
Á undanförnum árum hafa erlendir ferðamenn uppgötvað Ísland svo um munar. En hvað er það sem þeir koma til að sjá og hvernig sjá þeir okkur? Land Ho! er meðal fyrstu mynda sem skoðar Ísland frá sjónarhóli ferðamannsins, gerð af útlendingum og um útlendinga á Íslandi. Að því leyti til er hún tímamótaverk.
Leikstjórinn Martha Stephens verður viðstödd frumsýninguna en meðal framleiðanda myndarinnar eru Birgitta Björnsdóttir og Hlín Jóhannesdóttir. Fleiri Íslendingar eiga jafnframt þátt í gerð myndarinnar eins og leikararnir Daníel Gylfason og Þrúður Kristjánsdóttir.
Myndin fjallar um mága sem fjarlægjast hvorn annan þegar annar skilur og hinn missir konu sína. Mitch, sem er skurðlæknir á eftirlaunum, býður Colin í heimsókn og narrar hann til að koma með sér til Íslands – einmitt staðinn sem getur kætt tvo gamla karla sem hafa fengið sinn skerf af vonbrigðum í lífinu. Eftir að hafa skoðað næturlífið í Reykjavík halda þeir út fyrir borgarmörkin. Mitch, sem er oft ansi beinskeyttur og jafnvel dónalegur og Colin, sem er miklu fjarræni, eru ólíkir en þeir tengjast þó sterkum böndum á ferð sinni um landið á meðan þeir fílósófera um lífið. Í þessari fallegu og rólegu vegamynd fylgjumst við með tveimur eldri mönnum í leit að tilgangi sem þeir kannski hafa nú þegar fundið.
Fyrstu kvikmyndir Mörthu Stephens voru frumsýndar á SXSW hátíðinni árin 2010 og 2012 og unnu til verðlauna á kvikmyndahátíðum um víða veröld.
Opnunarmynd RIFF verður frumsýnd í Háskólabíói þann 25.september en hátíðin stendur yfir 25.september – 5.október.