Landnám og frumherjar Kópavogs

Kristján Guðmundsson, fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogs.

Kristján Guðmundsson, fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogs, flutti eftirfarandi hugvekju á aðventukvöldi i Digraneskirkju og gaf leyfi til að endurbirta hana í Kópavogsblaðinu:

Kæru kirkjugestir, gleðiríka aðventu. Vagga börnum og blómum, borgin hjá vogunum tveimur, risin einn árdag úr eyði heill undrunarheimur. Fyrir 50 árum var þessi óður, þetta ákall til náttúrunnar og æskunnar, eiginlega sálmur sunginn fyrst á tíu ára afmæli Kópavogsbæjar, 11. maí 1965. Höfundurinn, Þorsteinn Valdimarsson, bjó vestast við Nýbýlaveginn, niðri í Fossvogsdalnum, hámenntaður og hógvær guðfræðingur og hafði einnig lokið tónlistarnámi, var kennari að ævistarfi, skáld, kominn austan úr Vopnafirði, einn fjölmargra innflytjenda í Kópavoginn. Höfundur lags var Jón S. Jónsson, fyrsti skólastjóri Tónlistarskólans í Kópavogi, kominn frá Ísafirði, – báðir aðkomumenn.

Vexti Kópavogs á þessum árum má um sumt líkja við vesturferðir íslendinga til Ameríku á 19.öld, „risinn einn árdag úr eyði, heill undrunarheimur.“ Mikið umrót var þá í heiminum, kreppan á fjórða áratugnum, atvinnuleysi, fátækt og heimstyrjöld. Kópavogur var nú ekkert sérstakt gósenland en legan góð. Ungt fólk af landsbyggðinni, sem leitaði ævintýra og framtíðar hér á hálsunum, kom ótrúlega margt úr sveitum landsins; úr Dölum, rangæingar, húnvetningar og skaftfellingar. Fólk úr fiskiplássunum leitaði fremur á lík mið, eins og Akranes, Hafnarfjörð og Keflavík. Þarna kom úr sveitunum félagslega þenkjandi fólk með ungmennafélagslegan bakgrunn og þeir sem ötulastir og efnameiri voru, höfðu numið í tvö ár í héraðsskólunum víðsvegar um landið þegar best lét.

Í aðsigi voru stökkbreytingar
Nú hófst landnám í Kópavogi með skóflu og haka. Ekkert rennandi vatn, en allir bjuggu yfir framtíðarvon. Samvinnan blómstraði. Engir vegir, engin samgöngutæki, allir áttu hjól. Byggðin var grisjótt. Hér hafði efnalitlum verið úthlutað landi frá ríkissjóði til búdrýginda, með grænmetis og kart- öflurækt í huga og skepnur, hænsni, endur og nautgripir í Fossvogsdal. Landið var almennt mjög magurt, með löngum ásum, hálsum og stórgrýti.

Inn í þetta umhverfi koma stórhuga hjón 10. maí 1940, hernámsdaginn. Finnbogi Rútur Valdimarsson frá Fremri Arnardal í Skutulsfirði við Ísafjarðardjúp og Hulda Jakobsdóttir, fædd og uppalin í Reykjavík. Hann var lærður í alþjóðarétti í fjórum menningarborgum, Berlín, Genf, París og Róm. Þau setjast hér að á sjávarkambi innst í Fossvogi og kalla landnám sitt Marbakka. Hugsið ykkur – Finnbogi Rútur sprenglærður í alþjóðarétti og Hulda, fjórum árum yngri með stúdentspróf 1931, ég undirstrika, kona með próf frá Menntaskólanum í Reykjavík, sem var fátítt á þessum tíma. Þau leiða Kópavog í tæp 20 ár ásamt vösku liði. Hámenntuð hjón með suðræna, einkum franska, strauma í farteskinu. Höfðu víða farið, séð margt og numið. Finnbogi Rútur varð oddviti Seltjarnarneshrepps 7.júlí 1945, síðan oddviti Kópavogs frá formlegri stofnun hans, 1. jan. 1948 og seinna bæjarstjóri 1955 – 1957. Og bíðið nú við, kona hans Hulda sest í bæjarstjórastólinn 1957 – 1962 án nokkurra átaka, verður jafnframt forystukona í skóla og kirkjumálum.

Þrír bæjarstjórar Kópavogs frá fyrri tíð: Kristján Guðmundsson, Hulda Dóra Jakobsdóttir og Finnbogi Rútur Valdimarsson. Myndin er tekin úr bók Gylfa Gröndal: „Við byggðum nýjan bæ. Minningar Huldu Jakobsdóttur,“ sem kom út árið 1988.

Boðberi kvenfrelsis.
Koma Finnboga Rúts og Huldu valda straumhvörfum sem við búum enn að í dag. Menntun og menning er sett í öndvegi. Skólar hér urðu strax í fremstu röð á landinu. Fólk þyrptist í Kópavog. Hugsið ykkur, að nokkur haust hófu fleiri börn sína fyrstu skólagöngu í Kópavogi en Reykjavík. Nú er Menntaskólann í Kópavogi með fjölbreytt og umfangsmikið nám sem m.a. inniheldur gamla Hótel- og veitingaskólann.

Hulda hvatti konur til verka.
Sjáið Högnu Sigurðardóttur, arkitekt frá París og sundlaugina; Gerði Helgadóttur og steindu gluggana í Kópavogskirkju og Listasafnið. Á þessum tíma var stofnaður Lista- og menningarsjóður þar sem ákveðin prósenta af útsvari rennur til lista og menningar árlega. Um það vitnar Listasafn Gerðar Helgadóttur og stórbrotið listaverkasafn. Hvílik framsýni, hvílik reisn. Frumherjunum verður seint fullþakkað áræði þeirra og dugur. Að sjálfsögðu gekk þetta ekki alltaf átakalaust sbr. landsfleyg vísa: Hátt spenntur breiður bogi baráttunnnar nær og fjær. Klakksvík yrði Kópavogi kærleiksríkur vinabær.

Ég er stoltur af Kópavogi og mér þykir afar vænt um hann. Fjölskylda mín hefur notið hér margs; skólagöngu, íþróttastarfs, sumarstarfa og útilífs. Síðast naut móðir mín ríkulega dagvistar í Sunnuhlíð, en í þeim samtökum kristallaðist best samtakamáttur bæjarbúa svo þjóðarathygli vakti.

Að lokum, eigum ljúfa og gefandi aðventu.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Grindvíkingar í Kópavogsbúið

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, afhenti Fannari Jónassyni, bæjarstjóra Grindavíkur lykla að íbúðum í gamla Kópavogsbúinu við hátíðlega viðhöfn miðvikudaginn 10. júlí en íbúðirnar verða til afnota fyrir eldra fólk úr

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður VG og félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Ert þú í tengslum?

Aðsent Ert þú í tengslum? Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður VG og félags- og vinnumarkaðsráðherra. Félagsleg einangrun er vaxandi vandamál í nútímasamfélagi og rannsóknir sýna að til mikils er að vinna

Pikka upp dósir í Kópavogi

Nú geta íbúar Kópavogs sem vilja styrkja iðkendur íþróttafélaga með dósapening skráð sig á Pikka.is og látið iðkendur koma eftir pöntun að sækja hjá sér dósirnar. Hér áður fyrr var það algengt

Niðurlagning Héraðsskjalasafns Kópavogs

Skaðræðisgjörningur bæjarstjórnar Kópavogs Bæjarstjórn Kópavogs ákvað á fundi sínum 25. apríl 2023 með sex atkvæðum meirihlutans gegn fimm atkvæðum minnihlutans að leggja niður Héraðsskjalasafn Kópavogs. Þar fetaði bæjarstjórnin í slóð