Gríðarlega öflugt starf er rekið hjá hestamannafélaginu Spretti og mikill kraftur er í félagsmönnum enda nóg um að vera. Starfsemi félagsins er í miklum blóma og eru til dæmis tugir viðburða á dagskránni í mars. Nýlega var tilkynnt að Landsmót hestamanna, árið 2022, verður haldið á félagssvæði Spretts.
Hestamannafélagið Sprettur var stofnað árið 2012 við sameiningu Hestamannafélaganna Andvara í Garðabæ og Gusts í Kópavogi. Fjöldi félagsmanna Spretts er 1.140, sem gerir Sprett að næst stærsta hestamannafélagi landsins. Félagssvæðið að Kjóavöllum er gríðarstórt og sem dæmi má nefna er talið að um 20 þúsund manns komist auðveldlega fyrir í áhorfendabrekkum við keppnisvelli félagsins. Félagið á jafnframt og rekur tvær reiðhallir; Hattarvallarhöllina sem er 1.500 fermetrar og Samskipahöllina sem er
stærsta reiðhöll landsins og telur 4.000 fermetra. Þar er einnig rekinn glæsilegur veitingasalur. Það er því ekki að furða að þegar kom að því að velja hvar á landinu Landsmót hestamanna átti að fara fram eftir sex ár, eða árið 2022, varð Sprettur fyrir valinu. Sveinbjörn Sveinbjörnsson, formaður Spretts segir að félagssvæði Spretts hafi verið byggt upp með það að markmiði að geta haldið stórmót, og var þar Landsmót hestamanna meðal annars haft að leiðarljósi. „Því lá beinast við að sækja um Landsmót þegar auglýst var eftir umsóknum og var okkur úthlutað Landsmóti árið 2022 sem við Sprettarar eru mjög ánægðir með. Við munum því halda stórglæsilegt Landsmót á 10 ára afmæli félagsins. Í umsóknarferli okkar þá var mjög mikilvægt að fá yfirlýstan stuðning frá bæjarstjórum Garðabæjar og Kópavogs. Það hjálpaði okkur mikið,“ segir Sveinbjörn.
Hvernig er aðstaðan hjá Spretti fyrir hesta, keppendur og gesti á Landsmóti?
„Aðstaðan er eins og best verður á kosið. Hér eru þrír löglegir gæðingakeppnisvellir, þrír löglegir íþróttakeppnisvellir, tveir löglegir kynbótavellir, tveir kappreiðavellir og upphitunarvöllur,“ segir Sveinbjörn og bætir því við að í uppbyggingu sé svokölluð „TRECK-braut,“ sem er þrautabraut fyrir hesta. „Við getum hýst alla keppnishestana á Landsmótinu í hesthúsum félagsmanna og einnig munum við bjóða upp á tugi beitarhólfa. Reiðhallir okkar verða nýttar fyrir dýralæknaskoðun og upphitun keppnishesta og veitingaaðstöðu fyrir gesti. Einnig verðum við með íþróttahúsið Kórinn þar sem möguleikarnir eru nær endalausir og munum við kynna hvað þar fer fram þegar nær dregur. Aðkoman að svæðinu er líka mjög góð, frá Reykjavík, Kópavogi og Garðabæ. Félagssvæði okkar er vel í sveit sett þar sem við höfum reiðleiðir í Heiðmörk og við Elliðarvatn, héðan eru einnig góðar reiðleiðir í nærliggjandi hestamannafélög eins og Sörla í Hafnarfirði og Fák í Reykjavík. Þegar farið var að stað með uppbyggingu hér á svæðinu var markmiðið að geta haldið stór hestamannamót; bæði innanhúss og utan dyra.“
Það verður væntanlega í mörg horn að líta fram að Landsmóti. Hvernig verður undirbúningi háttað? „Við munum sjá hvernig Landsmótið verður í sumar að Hólum í Hjaltadal og reyna að draga lærdóm af því; kosti þess og galla. Við munum svo fara að vinna að markaðsstarfi fyrir Landsmótið okkar og munum auglýsa það á Landsmótum 2018 og 2020. Eftir sex ár verður félagssvæðið orðið rótgróið svæði með fleiri trjám og meira skjóli. Í fyrrasumar hélt Sprettur stórglæsilegt Íslandsmót í hestaíþróttum sem tókst afar vel og var ma. enginn hestur dæmdur úr leik vegna áverka, sem staðfestir gæði keppnisvallanna. Því getum við sagt að við séum búin að prufukeyra svæðið” segir Sveinbjörn Sveinbjörnsson, formaður Spretts.