Lánshæfismat Kópavogsbæjar er B+ með stöðugum horfum, að mati íslenska lánshæfismatsfyrirtækisins Reitunar ehf. og er því óbreytt frá því í júní þegar einkunnin var hækkuð úr B í B+. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsbæ. „Vel hefur gengið að greiða niður skuldir og hafa áætlanir staðist,“ segir í þessu nýja mati Reitunar. Það hefur verið sent Kauphöll Íslands.
Í niðurstöðum Reitunar er tekið fram að gengisáhætta Kópavogsbæjar sé nú hverfandi. Aðeins um 1,5% skulda eru nú í erlendum myntum. „Stjórnendur hafa sýnt fram á áframhaldandi getu og vilja til að fylgja eftir markmiðum sem sett voru á árinu 2010. Horfur í efnahagsmálum eru sveitarfélaginu hagfelldar. Lóðaúthlun gengur vel en það sem af er ári er bókfært úthlutunarverðmæti lóða um 800 – 900 milljónir króna,“ segir í niðurstöðum Reitunar.
Bent er á að í tillögu að fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árin 2015 til 2017, sem nú er til meðferðar í bæjarstjórn, sé ráðgert að rekstrarniðurstaða verði jákvæð á tímabilinu. Á næsta ári er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur verði 642 milljónir króna og að hann eigi síðan eftir að aukast árin þar á eftir. Miðað er við að hann verði rúmar 1.572 milljónir króna árið 2017.
Einnig segir í rökstuðningi Reitunar að þróun á fasteignamarkaði virðist vera öðruvísi í Kópavogi en víða annars staðar. Fasteignaverð hafi hækkað meira í bænum en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og að vel hafi gengið að úthluta lóðum. „Aukin íbúðafjárfesting er mikilvæg fyrir Kópavogsbæ þar sem bærinn á enn mikinn fjölda lóða til úthlutunar. Gangi lóðasala eftir vænkast staða bæjarins og hefði það jákvæð áhrif á lánshæfi.“
Kópavogsbær gerði samning við fyrirtækið Reitun fyrir þremur árum um greiningu og mat á lánshæfi sveitarfélagsins gagnvart fjárfestum á skuldabréfamarkaði. Kópavogur var fyrsta sveitarfélagið til að gera slíkan samning. Reitun er dótturfélag IFS greiningar og var stofnað árið 2010.